Lóndrangar eru tveir klettar, sem tróna við ströndina skammt austan Malarrifs og vestan Þúfubjargs í Breiðuvíkurhreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi. Frá veginum er aðeins 10 mínútna gangur að þeim og heillaráð að ganga fyrst upp grasu vaxna Svalþúfuna fram á brún Þúfubjargs til fuglaskoðunar. Lóndrangar eru leifar gígfyllingar með blöndu af gjalli og blágrýtisgöngum. Svalþúfu mátti ekki slá, því að hún var talin eign álfa. Hún er líklega austurhluti gígsins, sem Lóndrangar tilheyra og sjórinn hefur rofið í núverandi mynd. Þessi gamli gígur er umlukinn yngri hraunum.
Aðallega verpa langvía og rita í Lóndröngum en örn verpti í hærri drangnum á árum áður. Talið er, að Ásgrímur Böðvarsson hafi fyrstur klifið hærri dranginn árið 1735. Þar hrapaði maður til bana 1757. Ekki er vitað með vissu um að neinn hafi klifið lægri dranginn fyrr en 1938. Merki um útræði austan hærri drangsins má sjá enn þá, s.s. rústir sjóbúða og fiskireiti og garða í hrauninu.
Talið er að allt að 12 bátar hafi verið gerðir út frá þessari hafnleysu, þegar flest var. Við eyðibýlið Malarrif skagar ströndin sunnan Snæfellsjökuls lengst til suðurs. Þar var mikið útræði öldum saman, allt fram undir aldamótin 1900, eins og merkin sýna. Þar var ekki síðri hafnleysa en við Lóndranga og hættuleg lending. Vitinn var byggður 1917 og endurbyggður 1946. Stefnuvitanum þar var komið fyrir 1955. Símon Dalaskáld orti svo um Lóndranga:
Um Lóndranga yrkja má
eru þeir Snæfells prýði,
yzt við tanga út við sjá
aldan stranga lemur þá.