Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Laugarvatnsvellir

Laugarvatnsvellir eru valllendi 5-6 km vestan Laugarvatns á leiðinni milli þess og þingvalla um   Hrafnabjargaháls. Kálfstindar, Reyðarbarmur og Reyðarskarð eru vestan þeirra og Laugarvatnsfjall að austan og norðan. Þarna var og er fjölfarinn vegur og forfeður okkar, sem voru þar á faralds fæti, áðu þar eða gistu á ferðum sínum. Nýi vegurinn liggur út af Hrafnabjargahálsi suður í rætur Lyngdalsheiðar.

Neðst í brekkunum upp af Völlunum eru hellar. Snemma á 20. öldinni var búið í Laugarvatnshelli um tíma, eða fram til 1922, þegar þeir voru yfirgefnir að fullu. Hjónunum, sem þar bjuggu, fæddust þar tvö börn, hið fyrra að vetrarlagi og faðirinn varð að gegna hlutverki ljósmóðurinnar, sem dugði þó ekki til.

Hellarnir hafa veitt sauðfé skjól í aldaraðir og þar var það stundum hýst, þegar sauðamenn lágu þar við um nætur. Reimleikar í öðrum hellinum eru sagðir hafa hrellt bæði dýr og menn. Þegar hart var í ári, var oft heyjað á Laugarvatnsvöllum og þá var hafzt við í hellunum á meðan. Sunnan vegar við veginn upp Reyðarbarm eru hinar fornu Grímsnesréttir, hlaðnar úr hraungrýti í hraunjaðri Reyðarbarmshrauns. Austan hraunsins eru aðrir vellir með tjörnum, Beitivellir, sem voru áningastaður þeirra, sem voru á leið til Alþingis á Þingvöllum. Þeir bera oft á góma í Íslendingasögunum.

Vegurinn meðfram Reyðarbarminum liggur um Barmaskarð til eða frá Laugarvatni að Þingvöllum.

Austan Reyðarbarms er laut, Vopnalág, þar sem sagt er að Kári Sölmundarson hafi setið fyrir Flosa og brennumönnum, þegar þeir komu frá Alþingi 1012. Brennumönnum barst njósn af fyrirsátinni og þeir klöngruðust yfir Flosaskarð í Kálfstindum.

Myndasafn

Í grennd

Laugarvatn
Að Laugarvatni er skólasetur og hefur myndast byggðakjarni í kringum það og þjónustu við ferðamenn. Þar eru tvö hótel og vel skipulagt tjaldsvæði með …
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Þingvellir helgistaður allra Íslendinga
Á Þingvöllum við Öxará komu Íslendingar saman í fyrsta sinni árið 930. Upp frá því voru Þingvellir Fundarstaður þjóðarinnar allt til ársins 1798 eða í…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )