Fremur vatnslítil á, sem kemur upp í Laugarbólsvatni og fellur út í Ísafjarðardjúp. Hún er og stutt en þó veidd með 2-3 dagstöngum. Laugardalsá er afgerandi besta laxveiðiá Vestfjarða, sem segir þó lítið, því fáar laxveiðiár eru á svæðinu. Áin gefur þó yfirleitt milli 200 og 300 laxa á sumri og á góðum árum hér áður fyrr varð sumaraflinn oft mun meiri. Gott veiðihús er við ána og þar hugsa menn um sig sjálfir. Talað er um „efri ána”, sprænu, sem fellur frá Efstadalsvatni til Laugarbólsvatns og þar veiðist stöku sinnum lax. Vænn urriði er þó tíðari afli á þeim slóðum.
Vegalengdin frá Reykjavík til Laugabóls er um 390 km og 120 km frá Ísafirði.