Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Laufskálarétt

Laufskálarétt í Hjaltadal er meðal vinsælustu stóðrétta landsins. Hana sækja næstum þrjú þúsund gestir  árlega síðustu helgina í september. Venjulega hefst réttarhaldið að kvöldi föstudags með skemmtun í reiðhöll Svaðastaða.

Daginn eftir er stóðið rekið til réttar úr Kolbeinsdalnum og að réttum loknum eru haldnir fjörugir réttardansleikir.

Kolbeinsdalsafréttur hefur verið nýttur frá ómunatíð og sagnir eru til um rétt í grófinni milli Kolbeins- og Hjaltadals. Rétt var byggð við rætur Heljarfjalls á Heljar eyrum árið 1818. Hún var grjóthlaðin með stórum almenningi og 15 dilkum. Á þriðja áratugi 20. aldar voru uppi hugmyndir um byggingu réttar að Laufskálaholti í Brekkukotslandi (nú Laufskálar), en úr því varð ekki, þegar ný rétt var byggð sumarið 1929 á brekkukotseyrum nokkru sunnar núverandi réttar. Hún var reist úr timbri með 22 dilkum. Hún varð ónothæf í kringum 1950.

Þá renndu menn hýru auga til Laufskálaholtsins, en ekki þokaði málinu í rétta átt eftir fjögurra ára umræður. Þá Bauð Páll jónsson í Brekkukoti land undir réttina og nátthaga á holtinu endurgjaldslaust. Grunnur var jafnaður haustið 1953 og bygging hófst 2. júní 1954. Réttin er steinsteypt á stólpum og holt undir veggjum. Almenningurinn er láréttur en dilkum hallar smávegis frá miðju. Kostnaður við verkið var kr. 201.989.55 (áætlun var 150.000.-). Handgrafið var fyrir öllum stöplum. Verkfærin voru skóflur, hakar og járnkarlar. Timbrið úr gömlu réttinni var notað í mót fyrir steypuna, sem var handhrærð og vatn var sótt í mjólkurbrúsum. Kaupfélag Skagfirðinga sá um veggjabyggingu (yfirsmiður Guðmundur Sigurðsson).
Margir trúðu ekki, að þessu verki lyki í tæka tíð fyrir haustið og allt myndi hrynja. Engu að síður var nýja réttin vígð 20. september 1954. Friðbjörn á Hólum réði nafngiftinni, „Laufskálarétt”. Hann vildi ekki að hún fengi nafnið Laufskálaholtsrétt.

Gestum hefur fjölgað í Laufskálarétt með árunum og nú skipta þeir þúsundum. Verzlun með hross var fjörug, en dregið hefur úr henni.

Stóðréttir eru haldnar frá miðjum september til fyrstu daga í október ár hvert:
Miðfjarðarrétt í Miðfirði, Vestur – Húnavatnssýslu,
Skarðarétt í Gönguskörðum, Skagafirði,
Staðarrétt í Skagafirði,
Skrapatungurétt í Austur – Húnavatnssýslu,
Silfrastaðarétt í Blönduhlíð, Skagafirði,
Hlíðarrétt við Bólstaðarhlíð, Austur – Húnavatnssýslu,
Deildardalsrétt í Skagafirði,
Árhólarétt í Unadal, Skagafirði,
Auðkúlurétt við Svínavatn, Austur – Húnavatnssýslu,
Laufskálarétt í Hjaltadal, Skagafirði,
Undirfellsrétt í Vatnsdal, Austur – Húnavatnssýslu,
Þverárrétt í Vesturhópi, Vestur – Húnavatnssýslu,
Tungurétt í Svarfaðardal, Eyfirði,
Flókadalsrétt, Fljótum, Skagfirði,
Víðidalstungurétt í Víðidal, Vestur – Húnavatnssýslu,
Þverárrétt ytri, Eyjafjarðarsveit,
Melgerðismelarétt í Eyjafjarðarsveit.

Heimildir: Vefsetrið visitskagafjordur.is og Birgir Haraldsson frá Bakka í Viðvíkursveit.

Myndasafn

Í grennd

Hofsós
Hofsós er lítið og vinalegt þorp við austanverðan Skagafjörð, tiltölulega stutt frá Sauðárkróki. Hofsós á að baki 400 ára sögu verslunar og viðskipta …
Hólar í Hjaltadal
Skólasetur og kirkjustaður í Hjaltadal. Um 1100 átti Illugi Bjarnason prestur jörðina. Þá var ákveðið, að  biskupsstóll skyldi settur á Norðurlandi, e…
Sauðárkrókur
Sauðárkrókur er kaupstaður innst í Skagafirði vestanverðum. Þar er blómleg útgerð og fiskvinnsla og öflug þjónusta við nágrannasveitir. Ferðaþjónusta …
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Varmahlíð, Skagafjörður
Þegar ekið er niður þjóðveg 1 til austurs um Stóra-Vatnsskarð er komið í Varmahlíð í hlíðum Reykjarhóls. Þar er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn. Ja…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )