Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kálfanes norðan Hólmavíkur

Kálfsnes Strandir

Eyðibýlið Kálfanes er rétt norðan Hólmavíkur og þar er flugvöllur sveitarinnar. Þar var kirkja fram yfir 1709.

Til eru heimildir um vígslu kirkjunnar árið 1182 í sögu Guðmundar biskups Arasonar. Þá var Þorlákur biskup helgi á yfirreið á Vestfjörðum í fyrsta sinni og Kálfaneskirkja nýbyggð. Samkvæmt máldaga frá 1397 var hún helguð Maríu mey, Jóhannesi skírara, Pétri postula og heilögum Ólafi Noregskonungi. Kirkjan í Kálfanesi var hálfkirkja, þ.e. að þar átti að syngja messu annan hvern helgan dag auk daganna, sem voru tengdir nafndýrlingum kirkjunnar.

Talið er, að kirkjustæðið sé ofarlega í túninu, ofan sléttrar flatar, sem er kölluð Elísuflöt, og að þar sé líka kirkjugarður. Biskupasögur segja frá því, að Guðmundur biskup góði vígði brunn að Kálfsnesi nærri gamalli alfaraleið. Í jarðabókinni 1709 kemur fram, að Kálfanes var meðal stærstu jarða sýslunnar og hlunnindi lægju í silungsveiði í Ósá og Tröllkonusíki, grasatekja og hrístekja. Jörðin var í ábúð til 1940, þegar húsin voru rifin og efnið notað til byggingar sýslumannshúss á Hólmavík. Steinsteypt neðri hæðin stendur enn þá og jörðin er nytjuð frá Hólmavík, sem er í landi hennar.

Mjög sjaldgæf plöntutegund, stórnetla, vex á bæjarhólnum. Hún er afbrigði af brenninetlu og svæðið, sem hún vex á, lítur út eins og dökkur blettur í landslaginu. Þessarar jurtar er getið í heimildum frá 18. öld og talið, að rót hennar hefði lækingarmátt, ef hún væri soðin í víni og hunangi, gegn brjóstveiki, hósta og hryglu. Ólafur Olavius, Eggert og Bjarni minnast á jurtina í ritum sínum. Líklega var þessi jurt flutt inn og ræktuð til lækninga eða unnin úr henni hör, en hún var notuð til dúkagerðar í Svíþjóð og Englandi. Skrifpappír, sem var líka unnin úr plöntunni erlendis, þótti góður.

Myndasafn

Í grennd

Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )