Kálfafellskirkja er í Kirkjubæjarklaustursprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi (Fljótshverfi). Hún var byggð á árunum 1897-1898 og vígð 13. nóvember. Kirkjan er byggð úr járnklæddu timbri og rúmar 120 manns í sæti. Hún var endurbyggð á árunum 1959-1960, turn smíðaður og hún lengd. Jón og Gréta Björnsson máluðu kirkjuna, sem var endurvígð 21. júlí 1960.
Kirkjan á Kálfafelli stóð ofar í túninu til 1898. Þar er gamall kirkjugarður. Altaristaflan í kirkjunni er frá 1683. Gömul skírnarskál, sem var seld úr kirkjunni 1895 fyrir 30 krónur, er í Þjóðminjasafni. Þar er líka mjög fágætur prósessíukross úr katólskum sið úr kirkjunni. Prestssetur var í Kálfafelli til 1880, þegar sóknin var lögð til Kirkjubæjarklausturs. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar heilögum Nikulási.