Fyrir 1950 rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndazt. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum, sem er á floti í vatni. Jökullinn hljóp fram síðla vetrar 2009 og kefldi svo mikið á eftir, að Lónið stækkaði. Dýpið var mælt sumarið 2009 og reyndist vera 284 metrar. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Yfirborð lónsins hefur lækkað stöðugt, þannig að það gætir sjávarfalla í því. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og elurinn eltir ætið.
Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús.