Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Jökulgil

Jökulgil er u.þ.b. 13 km langur og tiltölulega grunnur dalur, sem liggur til suðausturs frá Landmannalaugum inn undir Torfajökul og um hann rennur Jökulgilskvísl. Fjallshryggurinn Barmur og Hábarmur (1192m) er austan við Jökulgil og upp að honum er Sveinsgil en á móti, Laugamegin, eru Grænagil og Brandsgil, hrikalegt með margs konar litskrúðugum kynjamyndum. Jökulgilið lætur engan, sem leggur leið sína inn í það, ósnortinn. Það er eins og að hverfa út úr raunveruleikanum inn í ævintýri að hafa þennan ótrúlega litauðuga og fjallasal með lágmyndum náttúrunnar allt um kring. Það er jafnvel ekki nóg að bera umhverfið saman við fagurt listasafn.

Fjöllin eru úr ríólíti og sums staðar sundursoðin af brennisteinsgufum. Gilið þrengist, þegar innar dregur, þar sem heitir Þrengsli, og innan við þau er smágróðurblettur við volga laugalæki í Hattveri og yfir rís ríólítnúpurinn Hattur, kynlega stuðlaður. Innsti hluti Jökulgilsins er ekki síður mikilfenglegur með Hábarm, Torfajökul, Kaldaklofsjökul og Reykjafjöll allt um kring. Háuhverir, mikið háhitasvæði, eru í hlíðum Reykja- og Kaldaklofsfjalla. Talið er að Torfajökulssvæðið sé mesta háhitasvæði landsins, sem er ekki hulið jöklum.

Enskur ferðalangur fórst fyrir nokkrum árum við Háuhveri fyrir norðaustan Háskerðing. Jökulgilskvíslin á upptök sín í Torfajökli og Reykjafjöllum. Henni hefur verið stýrt fram hjá Landmannalaugum með háum görðum til að koma í veg fyrir spjöll, sem hún olli þar í flóðum. Áin hleður stöðugt undir sig og hefur valdið hækkuðu grunnvatnsborði á Laugasvæðinu. Kvíslin fellur síðan áfram meðfram Norðurnámi út í Tungnaá. Brúin yfir hana var byggð 1966 og fram að því var hún versti farartálminn á hinni tiltölulega greiðfæru Landmannaleið. Sjaldgæft er að hægt sé að ganga, ríða eða aka inn í Jökulgilið á sumrin vegna árinnar. Bezti tíminn til þess er á haustin eða veturna, þegar lítið er í, því að oft þarf að fara yfir ána

Þjóðsagan segir, að Torfi í Klofa og allt heimilsfólk hans hafi flúið undan plágunni miklu 1493 og dvalið í Jökulgili á meðan hún gekk yfir. Þá var þar grösugur og skógi vaxinn dalur með jöklum um kring. Engu slíku er að mæta þar nú á dögum. Útilegumannatrúin var lífseig í tengslum við Jökulgil þar til Landmenn rannsökuðu það 1852 án þess að finna nokkur merki um slíkt hyski. Þá var farið að leita gilið og heimtur urðu miklu betri hjá bændum eftir það.

Myndasafn

Í grennd

Landmannalaugar
Landmannalaugar Landmannalaugar eru í kvos á milli brattra fjalla við háa og dökka brún Laugahrauns. Undan hrauninu spretta margar heitar og kaldar …
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )