Neðan Námafjalls og Námaskarðs (410m), rétt við þjóðveginn austur um Mývatnsöræfi, er stórt gufuspúandi og illa lyktandi háhitasvæði, sem heitir Hverir. Þar er fjöldi sjóðandi leir- og brennisteinshvera og borholna. Svæðið er allt, eins og Námafjall, ummyndað af jarðhita, kísli, gipsi og brennisteinsúrfellingum.
Hafa verður fulla aðgát, þegar gengið er um svæðið, og fylgja stígunum milli lágra bandagirðinganna til að komast hjá slysum. Það hefur komið allt of oft fyrir að óvarkárt fólk hafi sokkið niður í sjóðandi heitan jarðveginn og brennt sig illa. Brennisteinn var unninn í Hlíðarnámum og fluttur út. Þessar námur voru taldar hinar auðugustu á landinu og Reykjahlíðarbræður eru taldir hafa orðið ríkir af sölu brennisteins fyrir og eftir siðaskipti. Eftir árið 1563 eignaðist Danakonungur námurnar og brennisteinn var unninn þar annað slagið fram á miðja 19. öld. Verksmiðja var reist í Bjarnarflagi árið 1939 en starfseminni var hætt eftir fáein ár. Merki um fyrirhugaðan verksmiðjurekstur í Hverarönd eru augljós af grunni verksmiðjuhúss og borholum, sem blása enn þá og skila mestum hluta gufunnar á svæðinu til yfirborðsins.
Kræðuborgir eru nokkurra kílómetra löng gígaröð milli Austari og Vestaribrekku á Mývatnsöræfum. Þetta eru stakir gíghólar með 1-2 km millibili. Hæsta borgin er 50-60 m há. Frá þessum gígum er talsvert af Búrfellshraununum runnið.