Byggðarkjarni, skólasetur og kirkjustaður í Andakíl.
Þar bjó fyrstur Grímur hinn háleyski Þórisson, sem Skalla-Grímur gaf land „fyrir sunnan fjörð”. Núverandi kirkja var reist og vígð árið 1905 og er eign Bændaskólans. Kirkjan, sem áður stóð lítið eitt vestar, fauk 1903 og lenti brakið á þeim stað, þar sem ný var byggð. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði kirkjuna. Hún er skreytt að innan af Grétu Björnsson og altaristaflan er frá 1923, máluð af Brynjólfi Þórðarsyni listmálara og sýnir Krist í íslenzku landslagi.
Búnaðarskóli fyrir Suðuramtið var stofnaður á Hvanneyri árið 1889 og einn nemandi var skráður í hann fyrsta veturinn. Árið 1907urðu miklar breytingar á starfi skólans og breytti hann um nafn, hét eftir það Bændaskólinn á Hvanneyri. Framhaldsnám í búvísindum hófst við skólann 1947, þegar framhaldsdeild, síðar búvísindadeild, var stofnuð. Frá þeim tíma hefur fjöldi búfræðikandídata (B.Sc.) lokið námi. Í tengslum við skólann er rekinn umfangsmikill búskapur og tilraunastarfsemi, bæði í jarð- og búfjárrækt.
Á Hvanneyri er rekið skoðunarvert Búvélasafn. Þar býr á annað hundrað manns auk nemenda og lausráðinna starfsmanna á veturna. Á Hvanneyri hafa orðið tveir stórbrunar í tíð skólans. Hinn fyrsti varð 1903 og brunnu þá íbúðar- og skólahúsið og mjólkurskálinn. Aftur brann 1917 (íbúðarhúsið). Sumir töldu að um væri að kenna álögum konu einnar, sem varð að standa upp, þegar hjáleigur Hvanneyrar voru lagðar undir aðaljörðina eftir stofnun skólans. Var sagt, að hún hefði mælt svo um, að þrír stórbrunar yrðu á Hvanneyri.
Hvanneyrarengjar við botn Borgarfjarðar eru meðal grösugustu starengja landsins. Talið er, að þær gefi af sér um 3000 hestburði útheys í meðalári. Skömmu eftir aldamótin 1800 var amtmannssetur á staðnum um skeið. Guðmundur Jónsson hefur ritað bækurnar „Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára” (1939) og „Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára” (1979). Vegalengdin frá Reykjavík er 86 km um Hvalfjarðargöng.