Hvammskirkja er í Hvammsprestakalli í Snæfells- og Dalaprófastsdæmi. Hún var byggð úr timbri með og forkirkju og vígð á páskadag 1884. Hún er öll járnvarin. Yfirsmiður kirkjunnar var Guðmundur Jakobsson frá Sauðafelli. Gert var við kirkjuna á 100 ára afmæli hennar. Hún var helguð Guði, Maríu guðsmóður, Jóhannesi skírara, Pétri postula, Jóhannesi postula, Ólafi helga, Noregskonungi, Þorláki helga, Maríu Magdalenu og öllum guðs helgum mönnum í katólskri tíð.
Sagnir eru um að Skeggi Þórarinsson hafi fyrstur byggt kirkju í Hvammi. Hvammur var í bændareign fram undir siðaskipti og var bændum skylt að halda þar bæði prest og djákna. Teitur ríki Þorleifsson gaf Guði og kirkjunni aftur Hvamm 1531. Ögmundur biskup gaf Daða í Snóksdal Hvamm og fleiri jarðir sem „beneficium“ um lífstíð. Þannig hófust deilur Daða og Jóns biskups Arasonar. Fyrir andlát sitt lét Daði Hvamm lausan við Martein biskup, er veitti hann Birni bónda Hannessyni, síðasta óvígða manninum, sem hélt Hvamm. Sælingsdalstunga og Ásgarður voru annexíur frá Hvammi nær óslitið frá siðaskiptum. Til er máldagar kirknanna á afriti frá 1575. Samkvæmt jarðabók Dalasýslu frá 1731 var embættað þar fjórða hvern helgan dag.
(Heimild: séra Óskar Ingi Ingason).
Útkirkjur eru á Staðarhóli, Skarði, Staðarfelli og í Dagverðarnesi. Verulegar endurbætur voru gerðar á kirkjunni á áttunda áratugi 20. aldar.