Hrollaugseyjar eru þrjár. Þær eru fjórar sjómílur frá Breiðamerkursandi austanverðum. Hin austasta er stærst og þar er viti, sem var byggður 1954.
Hrollaugshólar eru sunnan Reynisvalla. Nafngjari þeirra var Hrollaugur landnámsmaður á Breiðabólsstað. Hann er sagður vera heygður þar. Fellsá flutti farveg sinn og eyddi haugi hans. Hólarnir eru bústaðir huldufólks. Þótt þeir séu vaxnir töðugresi, má ekki slá þá. Eitt sinn var það gert og þá sást til huldufólksins við þá iðju að brjóta niður hesthús og drepa nokkra hesta. Síðan hefur ekki verið slegið í hólunum.
Hrollaugsstaðir í landi Kálfafellsstaðar eru skólasetur Borgarhafnarhrepps. Það var líka notað sem þing- og samkomuhús (byggt 1945). Þarna var heimavist (1948-73). Ferðaþjónusta er stunduð þarna á sumrin. Félagsheimilið er opið ferðamönnum til gistingar á sumrin.