HRAUN – STEINSSTAÐIR
Hraun stendur neðan hólaþyrpingar, sem myndaðist þegar meginhluti Háafjalls hljóp fram þvert yfir Öxnadalinn, þannig að þunn fjallsegg með Hraundranga og fleiri tindum stóð eftir. Við þessar náttúruhamfarir varð til lægð milli þeirra og framhlaupsins, þar sem Hraunsvatn er nú (sjá veiðivef).
Hraun er talinn fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar (1807-45), skálds og náttúrufræðings, þótt rök hafi verið færð að því, að hann hafi fæðzt að Steinsstöðum. Hann ferðaðist talsvert um landið á árunum 1837 og 1839-42 til að rannsaka náttúruna og safna efni í í Íslandslýsingu fyrir Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Hann var einn stofnenda tímaritsins Fjölnis, sem birti mörg ljóða hans og þýðingar. Hann og Bjarni Thorarensen voru brautryðjendur rómantísku stefnunnar á Íslandi.
Steinsstaðir eru e.t.v. fæðingarstaður Jónasar. Sé svo ekki má nefna bæinn bernskustöðvar hans. Þar er gróðurreitur og minnisvarði skáldsins.. Ofan bæjar er fossinn Gljúfrabúi og Brattaskeið, þannig að staðfæra má „Dalvísu” Jónasar.
Rannveig, systir Jónasar, var gift Stefáni Jónssyni (1803-1890), bónda að Steinsstöðum og alþingismanni í nær 30 ár. Hann var einhver traustasti fylgismaður Jóns Sigurðssonar forseta.