Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hrappsey

Hrappsey

Hrappsey (1,7 km2) er suðvestan Purkeyjar og Selasund er á milli þeirra. Bærinn stendur á Vindási á austanverðri eyjunni. Stykkishólmur er u.þ.b. 7 km suðvestan eyjarinnar. Hrappsey er gerð úr anortosíti (tunglbergi; hin teg. á tunglinu er nórít), en anortosít er ljósa bergið á tunglinu. Á eyjunni er fornlegur, hringlaga garður á sléttu utan við hólinn Skalla. Við austurjaðar hans er hústótt, sem getur hafa verið fjárhús.

Daginn eftir víg Snorra Sturlusonar (1241) er Hrappseyjar getið í sögum, þegar Tumi Sighvatsson, frændi hans, fór frá Sauðafelli inn í Hvammsfjörð og þaðan í Hrappsey. Þar virðist hafa verið búið á þessum tíma og Skarðskirkjumáldagi frá 1237 segir frá bænhúsi þar (ekki getið 1705). Nafn eyjarinnar er skráð þar sem Rafnnzey, sem og í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1647 og í manntalinu frá 1703 kemur nafnið Hrafnsey fram. Í máldaga frá 1397 og í Sturlungu er nafnið Hrapsey. Í máldaga frá 1533 heitir hún Hrafsey en í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 heitir hún Hrappsey.

Hrappsey var góð til búsetu, nægilegt graslendi og útigangur góður. Varp var og er mikið og fugla- og dúntekja góð. Samkvæmt jarðabókum 1705 og 1731 var landskuld greidd til Skarðverja með dúni. Tíu manns bjuggu í eynni árið 1703 og 11 árið 1762 á einum bæ. Árið 1801 voru þar 14 manns á tveimur bæjum og árið 1845 voru 18 manns á einu heimili. Þá bjó þar Þorvaldur Sívertsen, konunglegur umboðsmaður Skógarstrandarjarða. Sívertsenar bjuggu þarna fram yfir aldamótin 1900. Árið 1926 voru 13 manns búsettir í eynni og þar var búið til ársins 1958 u.þ.b. Hlunninda er enn þá vitjað og fé gengur þar sjálfala allt árið.

Árið 1773 var reist og rekin þar fyrsta prentsmiðja landsins, sem laut ekki yfirráðum biskupsstólanna. Ólafur Ólafsson (Olavius) var frumkvöðull hennar. Hann hafði þegar látið prenta nokkur verk í Kaupmannahöfn, s.s.fyrstu útg. af Njálu. Bogi Benediktsson, bóndi, sem átti Staðarfell, Kjallaksstaði og Hrappsey, lánaði Ólafi fyrir útborgun. Prentsmiðjan átti að vera á Vestfjörðum en skipið kom með hana til Stykkishólms. Þá var tilhöggvin stofa flutt frá Staðarfelli til Hrappseyjar og prentsmiðjunni komið fyrir þar. Hún starfaði til 1795, þegar Landfræðingafélagið keypti hana og flutti hana að Leirárgörðum. Meðal góðra verka, sem voru prentuð í Hrappsey, voru Annálar Björns á Skarðsá, Lagasafn Magnúsar Ketilssonar, fyrsta útgáfa Egilssögu, Atla sera Björns Halldórssonar, Búnaðarbálkur Eggerts Ólafssonar og tvær bækur með þýddum og frumsömdum ljóðum eftir tengdason Boga, Jón Þorláksson, sem var síðar kenndur við Bægisá. Hann starfaði um tíma við prentsmiðjuna, þegar hann var hempulaus vegna barneignarbrots. Fyrsta tímarit, sem út kom á Íslandi var á dönsku og hét „Islandske Maaneds Tidender”. Það var gefið út sem umbun til allra dönsku styrktarmannanna, sem hjálpuðu til við stofnun og rekstur prentsmiðjunnar.

Sagt er, að Bogi hafi keypt prentsmiðjuhúsið á góðu verði eftir að maður hafði hengt sig í því og sumum þótti reimt þar. Dætur Boga reyndu eitt sinn að sofa þar, þegar gestanauð var mikil á Stafafelli en varð ekki svefnsamt. Þetta kemur fram í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en hann var eiginmaður Katrínar, annarrar dótturinnar. Hrappsey er í einkaeign og óheimilt er að heimsækja eyjuna í leyfisleysi.

Myndasafn

Í grennd

Breiðafjarðareyjar, Þúsund Eyja Flói.
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverju…
Brjánslækur
Fornt höfuðból, kirkjustaður og löngum prestsetur við mynni Vatnsfjarðar á Barðaströnd. Þar var kirkja   helguð heilögum Gregoríusi í katólskum sið. B…
Purkey
Purkey er ein eyjanna í Dalasýslu. Milli hennar og Skáleyjar er Skálastraumur og þar er hægt að komast yfir á stórstraumsfjöru nokkurn veginn þurrum f…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…
Stærstu Eyjar
1. Heimaey  13,4 2. Hrísey á Eyjafirði  8,0 3. Hjörsey í Faxaflóa  5,5 4. Grímsey  5,3 5. Flatey á Skjálfanda  2,8 6. Málmey  2,4 7. Papey  2,0 …
Stykkishólmur
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )