Hrafnsfjörður er í botni Jökulfjarða. Mörk Hornstrandafriðlands eru í botni hans og báðum megin fjarðar eru skriðurunnin fjöll með klettabeltum. Sunnan fjarðar og yzt er Kjósarnes, þar sem Leirufjörður tekur við. Hrafnfjarðareyri er um miðbik suðurstrandarinnar.
Fjalla-Eyvindur Jónsson og Halla bjuggu þar um miðja 18. öld og hann liggur grafinn í túninu. Gröfin er merkt með krossi og hellu með nafni hans. Lítið eitt innar er Skipeyri, þar sem írskir og enskir kaupmenn verzluðu fram yfir aldamótin 1800. Talið er reimt við Heiðingjakletta niðri við sjóinn. Það er hægt að ganga fjöruna neðan klettanna inn í fjarðabotn, þegar lágsjávað er. Sláturfé frá Hornströndum var flutt úr litlum vogi, Sóleimum, til slátrunar á Ísafjarðar.
Fjalla Eyvindur lést á Hrafnsfjarðareyri um 1780, á áttræðisaldri. Halla mun hafa látist skömmu síðar.
Hvítserkur, Bláfell og Hattarfell gnæfa yfir fjarðarbotninum. Hvítserkur er þakinn rýólítinnskotum og er snævi þakinn. Bláfell er flat að ofan, hömrum girt og nær 740 m hæ yfir sjó. Skorará rennur úr Skorarvatni og frá Drangajökli sunnan Hattfells. Gönguleið yfir Skorarheiði til Furufjarðar liggur meðfram ánni. Áin er kölluð Gýgjarsporsá í Landnámu og norðan hennar er samnefndur hamar (214m). Þjóðsagan segir frá skessu, sem drap niður fæti á hann og spor hennar sé þar til sönnunar. Gýgjarsporshamar er líka kaupstaður álfa og margar sögur fara af viðskiptum álfa og manna í grennd við hann. Jarðfræðingar álíta hamarinn jökulsorfinn gígtappa.
Álfsstaðadalur teygist upp úr firðinum til norðurs. Þar stóð bærinn Álfsstaðir, þar sem Halla, fylgikona Fjalla-Eyvindar er sögð liggja grafin. Leiðin til Bolungavíkur á Hornströndum um Bolungavíkurheiði liggur upp úr dalnum. Hún er illa merkt og ókunnugir ættu ekki að fara hana nema við góðar aðstæður.
Gýgjarsporshamar mun vera stærsta álfabyggð Vestfjarða. Hann er kaupstaður álfa með kirkju og fjölmörgum bæjum um kring. Þangað komu kaupskip með vörur frá Ísafirði eins og gerðis í mannheimum, þegar gufuskip Ásgeirsverzlunar komu frá Kaupmannahöfn með vörur. Sem dæmi um samskipti álfa og manna á þessum slóðum er saga af ungri stúlku, sem var á leið yfir Skorarheiði og villtist í vondu veðri. Hún varð örmagna á leiðinni og lagðist fyrir í hinzta sinn að hún hélt. Þá fannst henni hún liggja í hlýrri hvílu og nyti aðhlynningar. Hún hresstist og beið þess, að veðrið gengi yfir. Þegar birti til og um hægðist, sá hún, að hún hafði lagzt niður við hamarinn og taldi víst, að huldufólkið hefði komið til bjargar.