Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hrafnseyri

Hrafnseyri

Bær og kirkjustaður og fyrrum prestsetur í Auðkúluhreppi við norðanverðan Arnarfjörð. Bærinn stendur allhátt í hvammi, svo að útsýni er þaðan lítil, nema yfir fjörðinn. Núverandi kirkja á Hrafnseyri var vígð 28. febrúar 1886. Hún er byggð úr timbri og járnvarin. Kirkjan hefur tvisvar fokið af grunni, en í hvorugt skiptið laskaðist hún neitt að ráði og var sett aftur á grunninn. Hrafnseyri er kennd við Hrafn Sveinbjarnarson, eitt af göfuglyndustu og mestu stórmennum Íslands á seinni hluta 12. aldar og fyrstu árum hinnar 13. Hann er talinn hafa verið fyrsti menntaði læknir hérlendis, lærður bartskeri frá Salerno á Ítalíu.

Í Hrafnseyrartúni vottar fyrir kirkjugarði og gamalli kirkjutótt, sem er talin vera frá því á Sturlungaöld. Þessar minjar eru friðlýstar. Jón Sigurðsson forseti (1811-1879) fæddist á Hrafnseyri. Fæðingardagur hans er 17. júni, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Hann á sér einstakan sess í sögu þjóðfrelsisbaráttunnar og var frábær leiðtogi á þeim vettvangi. Hann hefur verið nefndur „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur”. Hann var þingmaður Ísfirðinga 1845, þegar endurreist Alþingi kom saman í fyrsta sinn í Reykjavík og síðan til æviloka. Hann varð fyrst forseti Alþingis árið 1849 og flest þing eftir það. Hús Jóns Sigurðssonar er í Kaupmannahöfn (Islands Kulturhus) í Øster Voldgade 12. Þar bjó Jón frá 1852 til dauðadags 1879.

Stytta Jóns eftir Einar Jónsson myndhöggvara er á Austurvelli í Reykjavík. Jóni var reistur bautasteinn á Hrafnseyri árið 1911. Í hann er greyptur eirskjöldur með andlitsmynd Jóns eftir Einar Jónsson. Safnið var opnað og kapellan vígð á Hrafnseyrarhátíð hinn 3. ágúst 1980 og var þá minnst 100. ártíðar Jóns Sigurðssonar. Séra Böðvar Bjarnason, sem var prestur á Hrafnseyri á árunum 1901-1941, ritaði sögu staðarins, Hrafnseyri (1961).

Myndasafn

Í grend

Ferðavísir
Ferðavísirinn nýtist við undirbúning góðrar ferðar. Hann sýnir gistingu, tjaldstæði, skoðunarverða staði, ferðir um hálendið, ferðaáætlanir, veiði, go…
Patreksfjörður
Patreksfjörður er syðstur Vestfjarða og kauptúnið er utarlega við norðanverðan fjörðinn. Íbúar hafa afkomu sína af sjávarútvegi og fiskvinnslu sem og …
Torfbæir og torfkirkjur
Nokkrir torfbæir á landinu Íslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )