Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hópið

Hópið Húnaþingi

Hópið er á mörkum A.- og V.-Húnavatnssýslna og er fimmta stærsta stöðuvatn landsins. Í því gætir flóðs   og fjöru, þannig að það er misstórt eftir sjávarföllum, 29 til 44 ferkílómetrar. Það er mjög mikið af fiski í vatninu. Mikið er af sjóbirtingi, urriða, vatnableikju og sjóbleikju. Einnig eru miklir möguleikar á laxveiði þar sem þúsundir fiska fara í gegnum vatnið áleiðis í laxveiðiárnar. Algeng þyngd sjóbleikju og birtings er 1-6 pund. Tvær kunnar veiðiár renna í Hópið, Gljúfurá og Víðidalsá, en hún er í flokki betri lax- og silungsveiðiáa landsins. Þingeyrarsandur skilur hópið frá hafi og mikil upplifun er að ríða yfir Hópið af Þingeyrasandi að Vaðhvammi undir Myrkubjörgum. Margir góðir veiðistaðir eru við Hópið. Góð veiðisvæði eru við Ásbjarnarnes, Skollanes og einnig út með Myrkubjörgum, en þar er ekki eins greitt yfirferðar. Jeppaslóð liggur meðfram Nesvík upp á Nesbjörg. Af henni er gönguleið niður að Steinbryggju og Vaðhvammi, sem eru þekktir veiðistaðir. Steinninn er vinsæll veiðistaður og einnig Kofakrókur, sem er nýtt heiti sem rekja má til hins kunna matreiðslumanns Rúnars Marvinssonar og er hann norðan við girðingu milli Gottorps og Ásbjarnanes. Austan við vatnið eru veiðistaðir við Refsteinsstaði og Gljúfurá. Einnig hefur veiðzt vel að austanverðu, t.d. út af bænum Haga, sérstaklega, þegar veitt er frá báti. Einnig benda nöfn eins og Veiði- og Silungav ík til þess, að þar sé nokkur veiðivon, en að undanförnu hefur lítið sem ekkert verið prufað að veiða á þessum stöðum. Fiski hefur ekki verið sleppt í Hópið sjálft en sleppingar hafa verið stundaðar í árnar, sem renna til þess, áratugum saman.

Að Ásbjarnarnesi er gott veiðihús með útsýni yfir Hópið. Þar eru salerni og húsið rúmar 15-20 manns í kaffi. Húsgjald er innifalið í verði veiðileyfa en gisting er ekki leyfð.
Við veiðar skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskurinn eltir og tekur. Aldrei má nota krækjur né annað sem festir í fiski að honum óvörum og án þess hann elti það.
Veiðitímabil er frá 10. apríl – 15. september. Veiðitími er 12 klst. á dag.

Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 230 km og 25 km frá Blönduósi.

 

Myndasafn

Í grennd

Blönduós
Blönduós er kaupstaður, sem liggur beggja vegna ósa Blöndu. Hillebrandtshúsið var upphaflega byggt á Skagaströnd (Höfðakaupstað) árið 1733 og flutt ti…
Hvammstangi
Hvammstangi við Miðfjörð er eina kauptúnið í Vestur-Húnavatssýslu, aðeins 7 km frá hringveginum. Íbúarnir annast þjónustu við nágrannabyggðarlögin og …
Veiði Norðurland
Stangveiði á Norðurlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn.  Laxveiði Norðurlandi vestra …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )