Holt í Önundarfirði hefur verið mikið höfuðból og prestsetur um aldir og talið meðal beztu brauða landsins vegna ýmissa hlunninda. Holtskirkja var byggð 1869.
Sagt er, að Oddur Einarsson, biskup í Skálholti, hafi vísiterað Holt og sagt séra Sveini Símonarsyni og konu hans Ragnheiði, að líklega yrði einn sona þeirra biskup að sér gengnum. Eftir að hafa séð syni þeirra hjóna sagðist Oddur ekki sjá biskupsefni þar en lagði hönd á maga Ragnheiðar og sagði að þar væri hann niðurkominn.
Það var Brynjólfur biskup Sveinsson (1605-75) í Skálholti. Árið 1975 var honum reistur minnisvarði í Holti. Hann safnaði gömlum handritum, þ.m.t. Flateyjarbók, sem er talin fallegasta varðveitta skinnhandritið. Friðrik III, Danakonungur, þáði það að gjöf frá Brynjólfi.
Séra Jón Eggertsson (1731-83), prestur í Holti, reið fram af háum hömrum en honum tókst að skreiðast heim, þar sem hann lézt af sárum sínum. Næsti prestur, Jón Sigurðsson, drukknaði í árósnum og síðan er talið reimt þar.