Höfði er skammt frá Höfðavatni á Höfðaströnd í Skagafirði. Þar var kirkjustaður og prestssetur um tíma.
Höfða-Þórður Bjarnason bjó þar eftir að hafa numið alla Höfðaströnd milli Unadalsár og Hrolleifsdalsár eins og segir í Landnámu. Sonarsonarsonur hans var Þorfinnur karlsefni Þórðarson (10. og 11. öld). Hann var meðal fyrstu landnemanna í Vesturheimi (Eiríkssaga rauða, Grænlendingabók). Þar fæddist Þorfinni og Guðríði konu hans sonurinn Snorri, sem talinn er fyrsti hvíti maðurinn fæddur í Norður-Ameríku. Fjölskyldan fluttist síðar til Íslands og bjó að Glaumbæ í Skagafirði.
Dys með beinum fimm manna fannst sunnan Höfðaár 1952. Líkamsleifar þessara manna báru vott um vopnaviðskipti eða líflát. Það kynni að vera hægt að rekja þær til bardaga milli Skagfirðinga og Englendinga árið 1431. Jóhann Kr. Schram, silfursmiður, sem bjó á Höfða um tíma, varð fyrstur til að klífa Kerlinguna við Drangey 1840.
Höfðavatn er stærsta stöðuvatnið í Skagafirði (10 km²) austan Þórðarhöfða. Báðum megin vatnsins eru malargrandar, Höfðamöl að norðan og Bæjarböl að sunnan, þar sem er afrennsli, sem lokast oft. Silungsveiði er mikil í vatninu. Hugmyndir voru uppi (Jóhann Sigurjónsson, skáld) um að gera stórskipa- og útgerðarhöfn í vatninu en ekkert varð úr framkvæmdum.