Hof er í austanverðum Vatnsdal. Samkvæmt Landnámu settist Ingimundur gamli Þorsteinsson þar að og nam allan dalinn upp frá Helgavatni og Urðavatni austan ár. Vatnsdælasaga fjallar um Ingimund og hans ættingja.
Hrolleifur hét maður, sem Ingimundur hafði gert vel við. Landnáma lýsir Hrolleifi betur og segir frá búsetu hans í Hrolleifsdal, sem gengur suðaustur í hálendi Skagafjarðar og er nú í eyði. Hann var kallaður Hrolleifur hinn mikli og var kappi mikill en óvinsæll. Hann gerði sér dælt við Hróðnýju Unadóttur í Unadal í óþökk fjölskyldunnar. Oddur Unason og félagar hans sátu eitt sinn fyrir Hrolleifi, sem vó Odd og tvo menn aðra. Vopn bitu ekki á hann vegna fjölkyngi móður hans, Ljótar. Hann var rekinn úr héraðinu og sendur til Ingimundar gamla, sem fékk honum bústað í Vatnsdal. Honum tókst að efna til illinda við Ingimund og syni hans vegna veiðiréttinda í Vatnsdalsá, sem enduðu með vígi Ingimundar. Hrollaugur launaði greiðann með því að skjóta spjóti í gegnum Ingimund, þar sem hann stóð á Goðhóli, sem er í túninu. Ingimundur sagði banamanni sínum að flýja sem skjótast, ella yrði hann drepinn.
Fagur trjálundur er hjá Hofi. Þar var gróðursetning hafin árið 1927 og meðal trjáa eru íslenzkar aspir. Lundurinn var girtur árið 1957.
Kvennaskóli Húnvetninga var starfræktur að Hofi á árunum 1882-83.