Hítarvatn er 7,6 km², mest 24 m djúpt og er í 147 m hæð yfir sjó. Afrennsli þess er Hítará. Það er ráðlegt að panta veiðileyfi með fyrirvara, þótt leyfðar séu 25 stengur í vatninu á dag. Í vatninu er bleikja og urriði. Snemmsumars er veiði mest í vatninu vestanverðu og síðar er gott að veiða við læki og undir hraunkantinum. Fiskur er yfirleitt 1-2 pund. Fluga, maðkur og spónn ganga vel.
Hítarvatn er við veg 593, 46 km vestan Borgarness. Það er jeppafært alla leið að vatninu frá bænum Hítardal. Þar er og leitarmannaskáli með hreinlætisaðstöðu, sem hægt er að gista í.
Hít hét tröllkerling, sem bjó í dalnum og frá henni eru öll nöfnin komin.
Tröllkonan Hít bjó í Hundahelli í Bæjarfellinu og þangað bauð hún Bárði Snæfellsás og fleirum af sama kyni í samkvæmi. Steindrangarnir neðan bæjar í Hítardal eru sagðir vera Hít og Bárður, sem þar dagaði uppi en önnur saga segir, að Bárður hafi gengið í Snæfellsjökul, þannig að þarna sé um annan karl að ræða.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 120 km.