Haukagil er í Vatnsdal og dregur nafn af samnefndu gili, sem var nefnt eftir tveimur berserkjum, sem gerðust fjölþreifnir til kvenna og kúguðu bændur í nágrenninu með fjárkröfum og eignaupptöku. Þeir undirokuðu bændur með því að hóta öllu illu, grenjuðu og bitu í skjaldarrendur, óðu eld og skoruðu á menn á hólm, ef þeir létu ekki að vilja þeirra. Það var ekki fyrr en Friðrik biskup af Saxlandi (Sjá Stóra-Giljá) skvetti vígðu vatni á eldinn, að þeir brunnu nægilega til að bændur gátu grýtt þá í hel. Þeir voru heygðir í gilinu.
Árið 1801 brast á foráttuveður og margt fjár fórst. Einn vinnumanna á bænum lauk húslestri áður en hann fór að leita fjár Haukagils en kom ekki aftur. Hann fannst nær dauða en lífi, frosinn fastur og lézt á heimleiðinni. Aðeins nokkrar kindur fundust næsta sumar. Ofan bæjar er lítill skógur barrtrjáa, sem var plantað 1927 og Haukagilsheiði.