Gunnarsholt heitir eftir Gunnari Baugssyni, afa Gunnars á Hlíðarenda, sem þar bjó samkvæmt Landnámabók. Bærinn, sem var áður stórbýli, stendur við jaðar Hekluhrauna. Snemma á 19. öld varð að færa bæinn vegna sandfoks og jörðin fór alveg í eyði árið 1925.
Ári síðar hófst sandgræðsla og nú er allt orðið iðjagrænt, þar sem var auðnin ein. Jörðin er ríkiseign. Höfuðstöðvar Sandgræðslu ríkisins hafa verið þar í áratugi. Þar er skógrækt, tilraunastarfsemi með ýmsar plöntur og grös, fræhúðun og miðstöð fræsöfnunar, aðallega til dreifingar úr flugvélum fyrrum, en nú annast tæki á jörðu niðri sáningu og dreifingu áburðar. Heykögglaverksmiðja var starfrækt, þar sem nú er fræhúðun. Fyrsta holdanautabú (galloway; Þerney) landsins var þar. Stóðhestastöð var rekin að Gunnarsholti enn var hætt 2003. Í landi jarðarinnar er Akurhóll, sem var hæli fyrir drykkjusjúklinga. Rekstur þess var lagður niður 1. október 2003.
Í lok árs 2007 kom út bók um sögu landgræðslu á Íslandi í eina öld. Hún heitir „Sáðmenn sandanna” eftir Friðrik G. Olgeirsson. Ritnefndarmenn voru Andrés Arnalds, Guðjón Magnússon og Sveinn Runólfsson.
Í lok árs 2009 kom út ævisaga Valgerðar Halldórsdóttur og Runólfs Sveinssonar, skóla- og sandgræðslustjóra, „Ræktun fólks og foldar”, eftir Friðrik G. Olgeirsson. Synir hjónanna, Þórhallur, Sveinn og Halldór, fylgdu bókinni úr hlaði.