Gönguleið að fossinum Glym í Hvalfirði
Gönguferð að fossinum Glym tekur á bilinu 3-4 klukkustundir. Ekið er inn Botnsdal, um 3 km eftir malarvegi, yfir gamla einbreiða brú og að merktu bílastæði þar sem gönguferðin hefst. Fossinn sést betur frá suðurbrún gilsins og þangað liggur sú gönguleið sem hér er lýst. Gengið er fyrst eftir stíg og síðar troðnum slóða en gönguleiðin hefur verið merkt með gulmáluðum steinum með vissu millibili. Sé gönguleiðinni fylgt er farið um hellisskúta sem opin er í tvo enda og þaðan er gengið niður á Botnsá. Til að komast yfir ánna þarf göngufólk þarf að fikra sig yfir ánna á viðardrumbi og styðjast við vír. Næst tekur við nokkuð brött brekka upp lausar skriður en þegar upp á þá brún er komið er gönguleiðin nokkuð greið fyrst um sinn. Fossinn er vel sýnilegur þegar gengið er út á brún gilsins á einum 3-4 stöðum. Þessir útsýnisstaðir eru mis aðgengilegir. Sá neðsti er aðgengilegastur en vilji göngufólk fara lengra þarf að fikra sig meðfram lausum klettavegg sem reynir á fótafærni og öryggi. Fyrir lofthrætt fólk getur þessi hluti leiðarinnar verið tálmi.
Hægt er að þvera Botnsá með því að vaða hana nokkuð fyrir ofan fossinn Glym, þar sem áin breiðir úr sér og dýpt vatnsins er nær víðast hvar rétt upp fyrir ökkla. Reynið það þó ekki ef mikið er í ánni. Ef áin er þveruð er hægt að fylgja troðnum stígum niður með gilinu norðanverðu og að bílastæðinu þaðan sem gönguferðin hófst.