Bakkatjörn var friðlýst árið 2000. Bakkatjörn er ísölt tjörn og hefur svo verið frá um 1960 þegar lokað var fyrir leirvog sem þar var. Lægð kölluð Rásin tengdi áður Bakkatjörn og Seftjörn en sú síðarnefnda er nú horfin undir byggð.
Umhverfis Bakkatjörn er graslendi í sendnum jarðvegi og votlendi. Þær tegundir sem finna má innan friðlandsins eru m.a. melgresi, skriðlíngresi, tágamura, lokasjóður, mýrasauðlaukur, njóli, túnvingull, vallarsveifgras, klóelfting, mýrastör, knjáliðagras, lófótur, hálmgresi, gulstör, hrafnaklukka, vætuskúfur (vætusef), baldursbrá, fjöruarfi, fjörukál, hjartaarfi, vallhumall, snarrótarpunktur, túnvingull, gullvöndur, engjavöndur, hnúskakrækill, umfeðmingur, mýrasóley, augnfró, túnsúra, skarifífill, brennisóley, maríustakkur, gleym-mér-ei, hvítsmári, vallhæra og skriðlíngresi. Í blautustu lænunum vaxa lófótur, gulstör, mýrastör ásamt hrafnafífu, klófífu, hófsóley, skriðlíngresi, vætusefi, mýrasauðlauk og knjáliðagrasi.
Aðgengi
Almenningi er heimil för um svæðið sé góðrar umgengni gætt. Á varptíma fugla, frá 1.maí – 1.júlí er umferð um friðlandið næst Bakkatjörn takmörkuð. Hundar eru óheimilir í friðlandinu.