Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Friðland í Flóa

Æðarfuægl

Friðlandið er á austurbakka Ölfusár norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í  aa5880a61f8ffd0a9133ef0e1598fd3c Straumnesi. Það nær yfir mestan hluta jarðanna Óseyrarness og Flóagafls, alls u.þ.b. 5 km². Það er 1-1½ km á breidd og telst með Ölfusforum til ósasvæðis Ölfuár, sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Flæðiengjar og tjarnir setja svip á friðlandið, sem er lágt og meðalhæð yfir sjávarmáli aðeins 2 m, þannig að sjávarfalla gætir þar í stórstreymi.

Umræða um endurheimt framræsts votlendis hefur verið áberandi undanfarin ár og ýmis félög hafa lagt henni lið. Fuglaverndarfélag Íslands fékk styrk úr Umhverfissjóði verzlunarinnar 1997 til að byrja endurheimt votlendis og uppbyggingu friðlands fugla í Flóa við Ölfusárós. Samtímis var gerður samningur við Eyrarbakkahrepp og vinna við verkið hófst. Eftir sameiningu sveitarfélaganna í vestanveruðum Flóa varð nýja sveitarfélagið aðili að samningnum. Konunglega brezka fuglaverndarfélagið hefur lagt þessu máli lið.

Flóinn er á Þjórsárhrauni, sem rann fyrir u.þ.b. 8000 árum frá eldstöðvum í Vatnaöldum á Veiðivatnasvæðinu. Það er talið vera stærsta Hraun á jörðinni, sem rann eftir að ísöld lauk. Friðlandið er þakið litlum tjörnum og pyttum, sem Flóamenn nefna dælir. Víða á engjum eru minjar um Flóaáveituna, sem var gerð á árunum 1922-27. Vatni var veitt úr Hvítá yfir stóran hluta sveitarinnar. Áveituskurðirnir urðu allt að 300 km langir og flóðgarðar u.þ.b. 540 km. Þá voru smíðaðar u.þ.b. 200 brýr og jafnmargar stíflur. Þetta var umfangsmesta framkvæmd í landbúnaði á sínum tíma og áveitan hin stærsta í Evrópu. Skömmu eftir að áveitan var tekin í notkun hófst tími framræslu í íslenzkum landbúnaði og hluta áveitunnar var breytt í fráveitu.

Gamlar þjóðleiðir milli Eyrarbakka, Kaldaðarness og Selfoss liggja um Nesbrú og Melabrú í austurhluta friðlandsins. Göturnar eru sums staðar enn þá greinilegar. Fornar bæjartóftir í Óseyrarnesi eru friðlýstar. Skammt vestan gömlu Flóagaflsbæjanna er þyrping mógrafa. Vatnið í þeim er blátært með miklu smádýralífi og fjölbreyttum gróðri. Þær sameina minjar um horfna menningu og atvinnuhætti og athyglisvert lífríki.

Votlendisfuglar einkenna friðlandið og tengsl við nærliggjandi fuglasvæði, fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir eru greinileg. Á varptímanum er fuglalífið sérstaklega auðugt og tegundaríkt. Þarna verpa nokkur álftapör (3-4), grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, duggendur, skúfendur og toppendur. Hreiður grafanda hafa fundizt og garg- og skeiðendur sjást á varptímanum. Þessar þrjár síðastnefndu tegundir eru almennt sjaldgæfar alls staðar á landinu. Á Kaldaðarneseyjum í Ölfusá, undan Flóagaflsengjum, er talsvert æðarvarp. Lómur verður víða við tjarnir og í eyjunum. Hettumávs- og kríuvörp eru á nokkrum stöðum og endur og mófuglar sækjast eftir að verpa í þeim. Einstaka kjói, sílamávur og svartbakur verða í friðlandinu. Mófuglarnir setja samt mestan svip á votlendið. Aðalvarptegundir þeirra eru lóuþræll, spói, jaðrakan, hrossagaukur, óðinshani og þúfutittlingur. Heiðlóan verpur á þurrari stöðum. Hvergi annars staðar hérlendis hefur þéttleiki varps lóuþræla mælzt meira en á Flóagaflsengjum og svipað er að segja um Jaðrakan við Kaldaðarnesflugvöll. Þéttleiki óðinshana er líka óvenjulega mikill. Á fartímunum vor og haust ber mest á grágæs og blesgæs, öndum, s.s. rauðhöfða- og skúföndum, ýmsum vaðfuglum, s.s. hrossagaukum og steindeplar eru líka áberandi.

Landselir eru algengir í Ölfusárósum, einkum á haustin og veturna. Þeir halda sig að mestu uppi við Kaldaðarneseyjar við friðlandið. Minkur er algengur allt árið. Hornsíli er algengt og silungur og áll er í skurðum og tjörnum. Í Ölfusá er lax og silungur. Smádýralíf er fjölskrúðugt í mýrum og tjörnum. Þar finnast m.a. brunnklukkur, tjarnartítur, rykmý og sérstök tegund marfóa, sem lifir í söltu vatni.

Gróðurinn er fjölbreyttur. Flæðiengjarnar eru vaxnar gulstör en þurrari svæði loðvíði, gulvíði, mýrastör og klófífu. Í kringum flestar tjarnir er ljósastör og þar eru líka nykrur, reiðingsgras, mari og fleiri tjarnarplöntur. Í mógröfunum við Flóagaflsbæina vaxa brúsakollur, lónasóley og borbrúða. Í suðurhluta friðlandsins, við Óseyrarnes, ber meira á þurrlendis- og hálfdeigjuplöntum. Þar er geithvönn áberandi auk hrossanálar, baunagrass, hrafnaklukku, túnvinguls o.fl.

Tvær tegundir fallegra og sjaldgæfra blómplantna eru tiltölulega algengar í friðlandinu. Önnur þeirra, stúfa, vex hér og þar um allt friðlandið. Hún er aðeins algeng undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum í grasbrekkum móti suðri. Hin er sjöstjarna, sem er talsvert útbreidd í friðlandinu, en það er þriðji fundarstaður hennar utan Austurlands, þar sem hún er algeng víða í skóglendi.

Tvær leiðir liggja norður eftir friðlandinu. Önnur er akvegur, sem sveigir til norðurs frá Eyrarbakka, fram hjá bænum Sólvangi og norður í Flóagaflshverfi. Við Stakkolt og Óseyrarbrú eru merkt bílastæði. Hin er gönguleið meðfram bakka Ölfusár frá bílastæðinu við Óseyrarbrú.

Myndasafn

Í grennd

Eyrarbakki – Stokkseyri
Eyrarbakki og Stokkseyri eru tvö sögufræg þorp við suðurströnd Árnessýslu. Þar var áður mikið útræði og bátaútgerð til skamms tíma. Nokkur fiskvinnslu…
Kaldaðarnes
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á …
Selfoss
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar. Selfosskaupstaður við Ölfusá, sunnan Igólfsfjalls, fór að   byggjast árið 1891, þegar hengibrú var lögð…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Þorlákshöfn
Þorlákshöfn er kauptún á Hafnarnesi, vestan ósa Ölfusár. Þar er eina góða höfnin á Suðurlandi frá Grindavík að Höfn í Hornafirði. Laxdælasaga segir f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )