Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Friðland að Fjallabaki

Landmannaleið

Friðland að Fjallabaki

Þetta friðland var stofnað 1979. Það nær yfir 47 km² lands og er ofar 500 m hæð yfir sjó. Svæðið er fjöllótt og eldvirkt og þakið hverasvæðum, hraunum, ösku, ám og vötnum. Markmið verndunar staða og svæða er að gera þau aðgengileg og halda þeim sem ósnortnustum fyrir allan fjöldann í nútíð og framtíð. Helztu einkenni Fjallabaksins er auðnin og friðurinn og einstaka gróðurvinjar, sem hundruð þúsunda ferðamanna hafa notið og gleyma aldrei. Við, sem erum þar á faraldsfæti, getum lagt lóð á vogarskálarnar með því að ganga vel um og skilja hvergi eftir okkur varanleg spor eða rusl.

Forfeður okkar, sem ferðuðust gjarnan með ströndum fram í fyrstu, uppgötvuðu leiðirnar að baki strandfjallanna, þar sem auðveldara var að sigrast á vatnsföllum og gerðu þær að alfaraleiðum. Landslag megineldstöðvarinnar á Torfajökulssvæðinu er einstakt hvað snertir litadýrð og mótun. Þetta er stærsta ríólítsvæði landsins og þar krauma einhver stærstu háhitasvæðin. Torfajökulssvæðið er eldvirkt en er jarðhitavirknin er talin dvínandi. Heitu laugarnar í Landmannalaugum eru aðeins lítið dæmi um jarðhitann, sem veldur myndbreytingum í bergi og bætir við litadýrðina. Brennisteinsalda er gott dæmi um slíkt. Jarðfræðingar telja svæðið vera öskju og rimarnar séu Háalda, Suðurnámur, Norður-Barmur, Torfajökull, Kaldaklofsfjöll og Ljósártungur.

Jarðlagastaflinn að Fjallabaki er 8-10 milljón ára. Þá var þetta svæði hluti af Reykjanes – Langjökulsrekbeltinu. Megineldstöðin var virkust síðustu tvær milljónir ára, þ.e.a.s. á ísöld, enda eru fjöllin undantekningarlítið úr móbergi (blágrýti og ríólít). Síðastliðin 100.000 ár takmarkaðist eldvirknin við nokkur sprungusvæði með suðvestur-norðausturstefnu. Síðasta stórgos varð 1480, þegar Veiðivatnasvæðið varð til í núverandi mynd og ríólíthraunin Laugahraun, Námshraun og Norðurnámshraun mynduðust. Samtímis varð til 30 km löng gígaröð, sem teygir sig í norðaustur frá Hnausapolli og Ljótapolli. Eldgos á svæðinu hafa verið sprengivirk og virðast hafa verið mögnuðust á 500-800 ára fresti. Talið er víst að slík eldgos hafi orðið árin 150 og 900 E.kr.

Ársmeðalhiti á Fjallabakssvæðinu gæti verið nærri 0-1°C, 5-14°C á sumrin og –6°C á veturna. Veðurlag í fjalllendi er oftast frábrugðið því, sem við eigum að venjast á láglendinu. Hitastig er lægra, vindstyrkur meiri, vindáttir breytilegar eftir landslangi, þoka algengari og líkur meiri á úrkomu (snjó eða regni). Sunnan- og suðaustanáttir geta þýtt rigningu og vont veður en norðlægar áttir bera með sér kaldara og bjart veður. Það er því ráð, að vera viðbúinn alls konar veðurskilyrðum.

Vegna hins kalda loftslags í Friðlandinu að Fjallabaki hefur gróðurinn ekki nema u.þ.b. tvo mánuði á ári til að vaxa og dafna og myndun jarðvegs er mjög hægfara. Hann skortir fullrotnað, lífrænt efni og veðruð steinefni og er viðkvæmur fyrir vatns- og vindveðrun. Moldrok er algengt og gjóska þekur stóran hluta friðlandsins. Aldalöng beit sauðfjár raskaði jafnvægi gróðurs og annarra náttúruafla. Samfelld gróðurþekja finnst aðeins á smásvæðum í grennd við læki, ár og vötn, s.s. í Kýlingum. Ríólít er súr bergtegund og því venjulega gróðursnauð en móbergið er oft þakið mosa. Talningar hafa leitt í ljós u.þ.b. 150 tegundir háplantna, burkna, mosa og fléttna. Loðvíðir er algengur á þurrum söndum og hraunum og fífa í votlendi. Láglendisgróður, m.a. stör og engjarós, finnst í Landmannalaugum.

Meira um Friðland að Fjallabaki:

Stöðuvötn eru tiltölulega einangruð lífríki, þar sem þörungar og aðrar plöntur eru undirstaða annars lífs. Framleiðslan er fremur hægfara í köldum vötnum og takmarkar fjölda lífvera. Vötnin að Fjallabaki eru köld. Urriði gengur úr Tungnaá í Kýlingavatn og Kirkjufellsvatn. Hann hefur verið í Ljótapolli og Frostastaðavatni eins lengi og menn muna. Allt frá 1970 hefur bleikju verið sleppt í vötn á svæðinu og hún hefur þrifizt vel og fjölgað sér. Urriðinn hefur minnkað vegna skorts á fæðu.

Fuglar
Fuglalíf er fábreytt eins og annars staðir á hálendinu. Snjótittlingar eru algengastir og við stöðuvötn sjást himbrimar, álftir og óðinshanar. Himbriminn verpir við Frostastaðavatn og Kirkjufellsvatn og stundum sjást straumendur á Jökulgilskvísl og verpa stundum í nágrenninu.

LANDMANNALEIÐ – FJALLABAK NYRÐRA

Í bíl.
Vegurinn um Landmannaleið fylgir í megindráttum gömlu reiðleiðinni milli Lands og Skaftártungu. Sigölduleiðin (F22) tengist henni við Frostastaðavatn og er fjölfarnari en Dómadalsleiðin. Báðar þessar leiðir liggja um hraun, mela og sanda og óbrúaðar ár. Þær eru venjulega færar frá júlí fram til fyrstu snjóa. Leiðin milli Landmannalauga og Elgjár er hentug fjórhjóladrifnum bílum vegna margra óbrúaðra lækja og áa og stundum er sandbleyta farartálmi. Það er óráðlegt að reyna að aka yfir á, sem er ekki væð. Bezt er að fara yfir í lágum gír án þess að skipta á leiðinni og aka hægt og markvisst og helzt að skásneiða undan straumi. Við forðumst að aka leiðir, sem eru ekki á ítarlegustu landakortum, því að það samsvarar akstri utan vega, sem er bannaður. Við verðum að hafa í huga, að engar bensínstöðvar er að finna að Fjallabaki.

Gangandi
Friðlandið er mjög vel fallið til lengri og skemmri gönguferða. Sumar gönguleiðanna eru á venjulegum landakortum og flestar eru vel merktar með stikum. Vinsælast er að ganga á Bláhnjúk (940m; 1-2 klst.) og að hverasvæðinu við Brennisteinsöldu (855m; 1-2 klst.). Þá ganga margir á Háöldu (1089m; 4-6 klst.), kringum Frostastaðavatn (2-3 klst.), á Suðurnámur (951m; 1 klst.) og í Brandsgil (1-2 klst.). Talsverð fyrirhöfn er að komast inn í Jökulgil, sem er u.þ.b. 13 km langt, vegna þess, hve oft þarf að vaða Jökulgilskvísl á leiðinni. Þá leggja margir land undir fót og ganga alla leið suður í Þórsmörk (Laugavegur; 74 km). Hver og einn þarf að áætla göngutímann þangað eftir getu og því, sem skoða skal á leiðinni. Margir vilja vera 3-4 daga á leiðinni til að njóta umhverfisins sem bezt.

Á gönguferðum ætti alltaf að vera gott kort og áttaviti með í för og bezt er að halda sig við stíga, því að sums staðar er villugjarnt, þegar skyggni er slæmt. Það er mikilvægt að vera rétt og vel búinn til fótanna og jafnvel á sumrin er hyggilegt að búast við öllum veðrum og hafa viðeigandi klæðnað við höndina. Margir hafa ofkælzt vegna þess að réttan klæðnað hefur skort. Göngufólk á alltaf að láta land- eða skálaverði vita um áætlanir sínar, þegar það leggur af stað. Þverhníptar klettahlíðar í friðlandinu eru hættulegar til klifurs vegna þess, hve ótryggar þær eru. Þá er aðgæzlu þörf á hverasvæðum, þar sem margir hafa sokkið í sjóðandi aurinn og brent sig. Það er bannað að henda grjóti eða rusli í hveri og laugar. Góðir göngumenn sneiða hjá gróðurlendi eins og hægt er, því að þau eru oft mýrlend og viðkvæm fyrir átroðningi.

Silungsveiði
Vötnin í friðlandinu eru vinsæl veiðivötn. Þar ber hæst Ljótapoll, Dómadalsvatn og Frostastaðavatn.
(Sjá Hálendisveiði, Vötn að fjallabaki við Landmannaleið)

Sund
Laugalækurinn í Landmannalaugum er vinsæll baðstaður. Þar þarf að gæta að því að skemma ekki viðkvæman gróður og það er bannað að fjarlægja jarðveg úr lækjarbökkunum. Glerílát eru líka bönnuð og notkun sápu er óheimil nema niðri við stíflu. Það er ekki mælt með böðum í leirpyttunum vegna mengunar. Mengunar gætir líka í Laugalæknum, þegar kemur fram á sumar og sár gróa seint og illa, ef folk hruflar sig.

Skálar og tjaldsvæði
Tjaldsvæði er að finna í Landmannalaugum, við Landmannahelli, í Hrafntinnuskeri og í Sólvangi. Ferðafélag Íslands á skála í Landamannalaugum og í Hrafntinnuskeri. Hellismenn eiga skála við Landmannahelli. Gæzla er í öllum skálum á sumrin.

Landvernd og umgengni
Friðlandið var stofnað til að vernda og varðveita bústaði dýra, vötn, jarðmyndanir og annað landslag. Því er mikilvægt, að gestir og gangandi sýni gát og reyni að raska umhverfinu sem minnst og helzt alls ekki. Við ættum alltaf að hafa í huga, að aðrir vilja njóta hins sama og við og við eigum e.t.v. eftir að koma aftur.

Friðlandið er ekki laust við beit sauðfjár, vegagerð, ferðaþjónustu og rafleiðslur. Bæði beitin og veiði í vötnum byggir á aldalangri hefð. Árið 1841 skrifaði sera Jón Torfason á Stóruvöllum í sóknarbókina, að beit og veiði á Landmannaafrétti væri minni en hefði verið um aldir. Samt sem áður er allt að 2000 fjár beitt á friðlandið enn þá. Landmannahellir og Landmannalaugar eru miðstöðvar gangnamanna síðsumars og á haustin.

Fjallabak var tiltölulega fáfarið þar til Ferðafélag Íslands byggði fyrsta skála sinn þar 1952. Síðan hafa samgöngur að og innan svæðisins batnað verulega og fólk hefur meiri frítima. Ferðamönnum fjölgar stöðugt og skipta nú tugum þúsunda á ári.

Boðorð ferðamannsins
Allir, sem heimsækja Friðlandið að Fjallabaki og aðrar náttúrperlur landsins ættu að hafa eftirfarandi efst í huga:

Tjöld eru ekki leyfð utan viðurkenndra tjaldsvæða nema með leyfi landvarða.
Utanvegaakstur er bannaður.
Stuðlum að verndun dýralífs.
Tínum ekki blóm.
Kveikjum ekki opna elda.
Skiljum ekki eftir rusl.
Byggjum ekki vörður.
Röskum ekki bergmyndunum.
Höldum hverasvæðum ósnortnum.
Virðum frið og ró umhverfisins.

Rútuáætlun Landmannalaugar

 

Myndasafn

Í grennd

Dómadalsleið
Dómadalsleið er vestasti hluti hinnar gömlu Landmannaleiðar, sem er tíðast kölluð Fjallabaksleið nyrðri. Hún liggur austur úr Sölvahrauni, austan norð…
Fjallabak nyðra Landmannaleið
Skaftfellingar nefna þessa leið Fjallabaksveg og telja það eldra og réttara. Hún liggur á milli Landsveitar og Skaftártungu norðan Heklu og Torfajökul…
Fjallabak Syðra Miðvegur
Þessi leið tengir Rangárvelli og Skaftártungu. Hún hefst við Keldur á Rangárvöllum, sé ekið til austurs. Þaðan er haldið upp með Eystri-Rangá um Laufa…
Gönguleiðir á Hálendinu
Listi yfir helstu gönguleiðir um Hálendið Gönguleiðir á Íslandi eru miklu fleiri en getið er um í þessari umfjöllun. Hérna er aðeins getið helztu lei…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Hrafntinnusker
Hrafntinnusker Hrafntinnusker er 1128 m hátt fjall við Austur-Reykjadali, austan Heklu. Það er hægt að aka langleiðina þangað frá Sátubarni á Dómadal…
Landmannalaugar
Landmannalaugar Landmannalaugar eru í kvos á milli brattra fjalla við háa og dökka brún Laugahrauns. Undan hrauninu spretta margar heitar og kaldar …
Vötn að fjallabaki
Hin eina sanna Landmannaleið liggur á milli Landsveitar og Skaftártungu um Dómadal. Þetta er einn og litskrúðugasti fjallvegur landsins, sem er akfær…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )