Fjórðungsalda (972m) er mjög veðruð grágrýtisdyngja rétt norðan við miðju Sprengisands. Hún kemst næst því allra fjalla að vera í miðju landsins.
Vestan undir henni er Fjórðungsvatn og vegurinn er rétt vestan þess. Vatnið er svo grunnt, að það getur horfið í mikilli þurrkatíð. Skammt frá vatninu eru vegamót. Þaðan liggja leiðir norður og suður Sand, niður í Eyjafjarðardal, að Laugafelli, niður í Skagafjörð og áfram norðan Hofsjökuls út á Kjalveg.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.