Eyrarvatn – Þórisstaðavatn – Geitabergsvatn
Öll þessi stöðuvötn liggja í röð í Svínadalnum við leiðina norður frá Ferstiklu og Saurbæ í Hvalfirði um Geldingadraga í Skorradal. Þau eru samtals 3,12 km² og eru í 77 m hæð yfir sjó. Dýpi þeirra er 12-24 m.
Sumarbúðir KFUM eru í Vatnaskógi við Eyrarvatn og leiðin þangað liggur fram hjá Norræna menntasetrinu upp úr Hvalfirðinum.
Veiðin í vötnunum byggist á urriða, bleikju og sjóbirtingi. Fiskurinn er oftast 1-3 punda en alloft veiðast 5-12 punda urriðar, einkum í Þórisstaða- og Geitabergsvatni Áin milli Geitabergs- og Þórisstaðavatns heitir Þverá og á milli Þórisstaða- og Eyrarvatns er Selós. Þegar vel árar, gengur talsvert af laxi í vötnin og veiðivon í báðum sprænunum er góð, ef sumur eru vætusöm. Veiðileyfin er seld sérstaklega fyrir hvert vatn. Sé leigður bátur, er eitt veiðileyfi innifalið og aðeins ein stöng er leyfð í hvora ána, Selós og Þverá á dag, þannig að þar verður að panta veiðileyfi fyrirfram.