Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Eyrarbakki

Sjóminjasafn Eyrarbakka

SJÓMINJASAFNIÐ EYRARBAKKA Í safninu eru munir frá Eyrarbakka, sem minna á sjósókn, iðanað og félags- og menningarsögu síðustu aldar eða svo. Safnið var stofnað fyrir forgöngu Sigurðar Guðjónssonar, skipstjóra. Það var opnað árið 1989. Stærsti og merkast safngripurinn er áraskipið Farsæll, sem Steinn Guðmundsson skipasmiður á Eyrarbakka smíðaði fyrir Pál Grímsson, útvegsbónda í Nesi í Selvogi. Farsæll er tólfróinn teinæringur með svokölluðu Steinslagi, en Steinn smíðaði yfir fjögur hundruð skip. Bátar með Steinslagi þóttu henta sétlega vel í brimverstöðvunum á Suðurlandi. Í safninu er einnig talsvert af ljósmyndum til sýnis. Þá er í eigu safnsins beitningaskúr frá 1925, en þá var blómaskeið vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Allsérstæð klæðning er á vesturhlið skúrsins, þar sem lítill árabátur var tekinn og flattur út og negldur þannig upp á vegginn.

HÚSIÐ og ASSISTENTAHÚSIÐ EYRARBAKKA Húsið á Eyrarbakka er meðal elztu bygginga landsins. Það var flutt inn tilsniðið árið 1765 og er stokkbyggt timburhús, 20 x 14 álnir að flatarmáli og 659 m³ á tveimur hæðum með háalofti undir hanabjálka.

Assistentahúsið er viðbyggingin að vestanverðu með tengibyggingu. Það var byggt árið 1881 og er 280 m³. Það var upphaflega aðsetur verzlunarþjóna Lefolii-verzlunarinnar.

Sjóvarnargarðurinn fyrir framan Húsið var gerður í kjölfar Básendaflóðsins (Stóraflóðs) árið 1799.

Fyrir norðan Húsið eru útihúsin, sem voru reist 1922 og kanínugarðurinn svokallaði, þar sem ræktaðar voru kanínur til manneldis. Síðar var reft yfir garðinn og hertur þar fiskur en á 20. öld var lengst af ræktað þar grænmeti. Leifar af stéttinni fyrir framan Húsið komu í ljós sumarið 1995, þegar jarðvegur á lóð Hússins var fjarlægður. Rústir, sem sjá má fyrir austan Húsið eru sennilega fjósrústir auk rennu, sem lá frá þvottahúsi og norður í dælu á Garðstúninu en er nú uppþornuð. Húsið og Assistentahúsið ásamt sjóvarnargarðinum eru friðuð í A-flokki samkvæmt þjóðminjalögum.

ÁGRIP AF SÖGU HÚSA Á EYRARBAKKA Frá 1765 til 1925 var Húsið heimili kaupmanna og annars starfsfólks Eyrarbakkaverzlunar. Það var nefnt „Húsið” í daglegu tali, sennilega vegna þess, að lengi fram eftir 19. öld var ekkert annað íbúðartimburhús á Bakkanum og bar því höfuð og herðar yfir annan húsakost.

Húsið er landsfrægt fyrir sögu sína og hlutverk í íslenzkri menningarsögu. Það var miðstöð allrar menningar austan Fjalls og einnig eitt mesta menningarsetur landsins um langt skeið, eða frá þeim tíma, þegar Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri og kona hans frú Sylvia Thorgrímsen fluttust þangað árið 1847. Menningarleg áhrif frá Húsinu á þessum tíma voru margvísleg og báru einkenni danskrar borgaramenningar.

FRIÐLAND í FLÓA Friðlandið er á austurbakka Ölfusár norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í Straumnesi. Það nær yfir mestan hluta jarðanna Óseyrarness og Flóagafls, alls u.þ.b. 5 km². Það er 1-1½ km á breidd og telst með Ölfusforum til ósasvæðis Ölfuár, sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Flæðiengjar og tjarnir setja svip á friðlandið, sem er lágt og meðalhæð yfir sjávarmáli aðeins 2 m, þannig að sjávarfalla gætir þar í stórstreymi.

Umræða um endurheimt framræsts votlendis hefur verið áberandi undanfarin ár og ýmis félög hafa lagt henni lið. Fuglaverndarfélag Íslands fékk styrk úr Umhverfissjóði verzlunarinnar 1997 til að byrja endurheimt votlendis og uppbyggingu friðlands fugla í Flóa við Ölfusárós. Samtímis var gerður samningur við Eyrarbakkahrepp og vinna við verkið hófst. Eftir sameiningu sveitarfélaganna í vestanveruðum Flóa varð nýja sveitarfélagið aðili að samningnum. Konunglega brezka fuglaverndarfélagið hefur lagt þessu máli lið.

Hvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!

Myndasafn

Í grennd

Eyrarbakki – Stokkseyri, Ferðast og Fræðast
Ferðavísir Selfoss 13 km <- Eyrarbakki -> Stokkseyri 3 km | Thorlakshofn 15 km Eyrarbakki og Stokkseyri eru tvö sögufræg þorp við suðurströnd …
Friðland í Flóa
Friðlandið er á austurbakka Ölfusár norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í   Straumnesi. Það nær yfir mestan hluta jarðanna Óseyrarness…
Kaldaðarnes
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á …
Ölfusá
Ölfusá tekur við neðan ármóta Hvítár og Sogs. Hún er stutt, aðeins 25 km að sjó, en vatnsmesta á   landsins engu að síður. Hún rennur í gegnum Selfoss…
Þorlákshöfn/ Ölfus
Þorlákshöfn Sagnir herma, að þar hafi staðið bærinn Elliðahöfn og bóndinn þar hafi eitt sinn heitið á Þorlák biskup   að breyta nafni jarðarinnar, …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )