Næststærsta eyjan á Kollafirði heitir Engey. Nafn hennar er líklegast dregið af engjum á eynni og þá er þess getið í Sturlungu, að Sturla Sighvatsson hafi látið flytja skreið og mjöð úr eynni. Það bendir til sjósóknar þaðan og kornræktar. Njálssaga getur Engeyjar líka í tengslum við bræðurna Glúm og Þórarin á Varmalæk, sem áttu Engey og Laugarnes.
Kirkja var first vígð í Engey 1379 og síðasta kirkjan var lögð niður 1765. Síðustu bæjarhúsin í Engey voru orðin hrörleg og óprýði við aðsiglinguna að Reykjavík. Þau voru snyrt og máluð í kringum 1963 og síðan brennd til grunna árið 1966.
Arnes Pálsson, útileguþjófur, sem var fyrrum í félagsskap með Fjalla-Eyvindi og Höllu um tíma, lézt í Engey 1805 sem niðursetningur.
Sérstakt bátalag, Engeyjarlagið, sem var algengt við Faxaflóa eftir 1880, var kennt við eyjuna. Skip með þessu lagi voru talin stöðugri og betri siglarar en önnur.
Meðal merkra manna af hinni svokölluðu Engeyjarætt voru séra Bjarni Pálsson, dómkirkjuprestur og vígslubiskup og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. Grímur Thomsen, skáld, átti eyjuna um tíma á en síðan komst hún undir ríkissjóð. Hún varð hluti af Reykjavík 1978. Vitinn á norðurenda hennar var reistur 1902 og endurbyggður 1937.
Sexæringurinn var smíðaður í Engey árið 1912 af Bjarna Brynjólfssyni skipasmið og bónda. Var það jafnframt síðasti árabáturinn sem þar var smíðaður. Upphaflega var hann notaður til fiskveiða en seinna líklega til flutninga af ýmsu tagi. Báturinn, sem hefur ekkert eiginlegt nafn, var keyptur til Þjóðminjasafns Íslands 1940. Báturinn er með Engeyjarlagi, að mestu úr furu nema kjölurinn, sem er úr eik, súðbyrtur, tvímastra, með fjórum þóftum, bugspjóti og stýri. Mesta lengd bátsins er 8,57 m, breidd 2,22 m, dýpt 72 sm. Það jafnast á við meðalstóran sexæring um aldamótin 1900. Formastur er 4,72 m hátt, afturmastur 4,30 m. Á báðum möstrum eru sprytsegl, auk þess tvö forsegl, klýfir og fokka. Sprytsegl urðu algeng um miðja 19. öld á Íslandi, en fram að þeim tíma var fremur lítið um seglanotkun á opnum bátum. Upp úr 1860 varð mikil breyting á lagi báta við Faxaflóa. Var það kennt við Engey en þar bjuggu höfundar þess og upphafsmenn. Ruddi Engeyjarlagið sér svo fljótt til rúms að heita mátti að nálega allir bátar við Faxaflóa væru smíðaðir með þessu lagi næstu áratugina á eftir. Mikill fjöldi báta var smíðaður í Engey fram yfir aldamótin 1900 og fóru þeir víða. Einnig urðu margir til að læra skipasmíði í eynni.
Uppl. Þjóðminjasafns og nat.is