Eilífsdalur gengur suður að hátindi Esju (914m) úr Kjósinni. Samnefndt býli er í mynni hans. Helgi bjóla fékk Eilífi, skipverja sínum, bústað þar. Mælt er, að Eilífur hafi verið heygður á Eilífstindi, ofan bæjar. Utan dalsins er keilulagaður og friðlýstur Orrustuhóll.
Kjalnesingasaga segir, að Bræðurnir Helgi og Vakur Arngrímssynir í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd hafi veitt Búa Andríðarsyni eftirför við 12 mann, en Búi hafði einn til fylgdar á leið til skips í Hrútafirði. Búi sá eftirförina og bjó um síg á hólnum og safnaði að sér grjóti meðan tími vannst til. Hann lét það dynja á fjendunum og tók svo til vopna. Hann drap sex og særði hina áður en Eilífur bóndi kom og skakkaði leikinn. Þá var Búi enn þá ósár.