Dagverðarnesskirkja er í Hvammsprestakalli í Snæfells- og Dalaprófastsdæmi. Hún varð sóknarkirkja 9. 1758, áður var hún hálfkirkja. Hún var í fornum sið helguð Magnúsi Erlendssyni, jarli í Orkneyjum. Elztu heimildir um bænhús eru frá miðri 13. öld. Samkvæmt jarðabók Dalasýslu frá 1731 var þar embættað vor og haust.
Núverandi kirkja var endurbyggð árið 1933, að mestu úr viðum eldri kirkjunnar frá árinu 1848. Sóknarpresturinn, séra Ásgeir Ásgeirsson, p´rofastur í Hvammi, vígði hana sunnudaginn 22 júlí árið 1934. Byggingarkostnaður var kr. 4.777.36. Hún var lagfærð 1984. Meðal merkra gripa eru altaristöflur frá 1706 og 1762 og prédikunarstóll frá 1783. Á Prédikunarstólnum stendur: „Gud til Ære og KirKen i Dagverdsrnæs til Zirat er denne Prædikestoel gieven af Jon BrandsSen og hans Qvinde Gudlaug Jons Daatter. Anno 1783.“ Altaristaflan frá 1706 er líklega úr Búðardalskirkju á Skarðsströnd. Á töflunni er Kristur á krossi og sitthvorum megin við krossinn eru María Mey og Jóhannes postuli. Fyrir neðan er mynd af síðustu kvöldmáltíðinni. Sitthvorum meginn við krossmyndina stendur: „Til Guds ære og kirkens Ziraf haftver gievet ….. Torbjörnsön Anno 1706.“
Á neðri töflunni (1762) er mynd af síðustu kvöldmáltíðinni og fyrir ofan er ský með nafni Guðs á hebresku. Töflunni er lokað með mynd af guðspjallamönnunum, Matteusi og Markúsi að utanverðu og Lúkasi og Jóhannesi að innanverðu. Texti fyrir neðan töfluna er „Ano Mad Charitas Bjarne Datter 1762.“ Í garðinum er jarðsettur Lárus M. S. Johnsen (29/9 1819-12/1 1859), kvæntur 23/5 1849. (Matt. 5:5-8.). Ártal á hurðarútbúnaðinum er 1867.
(Heimild: Óskar Ingi Ingason; www.aknet.is/oskarutd).