Brúardalir eru á Brúaröræfum inn af Brú, efsta bæ á Jökuldal. Þessir dalir eru Laugarvalladalur, Sauðárdalur, framhald hans, Vesturdalur og Fagridalur auk nokkurra minni dalverpa. Bærinn Laugarvellir var á Laugarvalladal, þar sem er jarðhiti, baðlaug og sæluhús. Leiðir á þessar slóðir liggja frá Brú, Möðrudal og frá Jökuldalsheiði.
Frá Brúardölum er örskammt að fara að Hafrahvamma- og Dimmugljúfrum í grennd við Kárahnjúka, þar sem hægt er að aka yfir Jöklu á stíflu Hálslóns. Sagnir eru til um mikla byggð inn með Jöklu, þannig að bærinn Brú var í miðri sveit.
Samkvæmt sögnunum var kirkjustaður á Bakkastað nokkru innan Brúar, þar sem rústir sjást enn þá. Bakkastaður eyddist, þegar sóknarfólkið dansaði og lét öllum illum látum í kirkjugarðinum á sjálfa jólanótt. Það sökk allt í jörð niður, líkt og í þjóðsögunni um dansinn í Hruna. Auk Bakkastaðar eru tilgreindir bæirnir Hóll inni undir jökli, tveir bæir með nafninu Hringbotnar og Fossnes. Talið var að ýmislegt óhreint væri á sveimi í Brúardölum og reimleikar miklir.