Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Bjarnarflag

Árið 1967 hófst umræða um gufuaflstöð í Bjarnarflagi og næsta ár fékk Laxárvirkjun heimild til að reisa   2,5 MW stöð vestan undir Námafjalli. Þá hafði verið borað eftir gufu fyrir Kísilgúrverksmiðjuna með góðum árangri. Sumarið 1968 var byggt steinsteypt stöðvarhús og settur niður BTH, 400 Volta mótþrýstirafall frá Bretlandi. Orkuverið var gangsett 5. marz 1969 og rekstur þess gekk vel í meginatriðum næstu árin. Vegna hættu á eldgosum voru vélar og búnaður fjarlægð úr stöðinni haustið 1978 en komið fyrir aftur og gangsett fyrir árslok 1980. Lengst af síðan hefur stöðin skilað 2½-3 MW. Upphaflega vélin er enn þá notuð að stofni til, en hún og annar búnaður hefur verið endurnýjaður í áranna rás eftir þörfum.

Jarðskorpuhreyfingar og eldgos í Gjástykki ollu talsverðum usla á Bjarnarflagssvæðinu á árunum 1975-84 og margar eldri borholnanna eyðilögðust. Borað var eftir gufu í Bjarnarflagi 1980 og þá bættist öflug borhola við. Þetta orkuver tryggði Kísiliðjunni og byggðinni í Reykjahlíð og annars staðir í umhverfi Mývatns örugga orku og dró úr nauðsyn notkunar dýrra díselvéla á Akureyri. Á þessum árum var Norðurland einangrað veitusvæði á svæði Laxárvirkjana, sem náði til Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna. Fyrst átti Laxárvirkjun stöðina en Jarðvarmaveitur ríkisins gufuveituna. Árið 1987 keypti Landsvirkjun gufuveituna og nýtingarréttinn af Orkustofnun eftir að Laxárvirkjun sameinaðist Landsvirkjun.

Virkjunin í Bjarnarflagi er fyrsta og elzta gufuaflsvirkjun landsins og ein hinna fyrstu í heiminum. Reynslan af henni efldi mönnum kjark til að ráðast í stærri verkefni, s.s. á Kröflusvæðinu, í Svartseingi og á Nesjavöllum.

Árið 2001 var rekstur orkuversins í Bjarnarflagi stöðvaður um tíma á meðan hverflar og annar búnaður stöðvarinnar var endurnýjaður fyrir u.þ.b. 60 milljónir króna. Að því loknu á stöðin að skila u.þ.b. 3 MW inn á kerfið. Áform um byggingu stærri stöðvar hafa fengið fremur dræmar undirtektir á suðvesturhorninu og önnur beizluð jarðorka hefur verið nýtt af kappi. Þessi þróun hefur ýtt undir endurnýjum stöðvarinnar til ítrustu hagnýtingar orkunnar í Bjarnarflagi, sem ella færi til spillis. Mývetningar og aðrir Þingeyingar hafa ætíð tekið hugmyndum um stór orkuver í Bjarnarflagi vel, enda hefur reynslan af nýtingu þessarar orkulindar verið góð frá upphafi.

Myndasafn

Í grennd

Krafla
Nafnið á fjallinu, sem heitir Krafla, hefur teygzt út yfir háhitasvæðið suðvestan þess eftir tilkomu  virkjunarinnar frá 1974. Leirhnjúkur er á syðsta…
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn landsins. Í því er góð silungsveiði, sem bændur við vatnið stunda allt árið. Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt …
Mývatn, Silungsveiði
Mývatn er 36,5 km². Það er í 277 m.y.s., mjög vogskorið og með rúmlega 40 eyjum og hólmum. Mesta náttúrulegt dýpi er 4,5 m og víða er mun grynnra. Mun…
Virkjanir á Íslandi, ferðast og fræðast
Listi yfir raforkustöðvar í stafrófsröð Bjarnarflag Blævardalsárvirkjun Blönduvirkjun Búðarhálsstöð Búrfellsvirkjun …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )