Ásavegur, hin forna þjóðleið.
Ásavegur er hin forna þjóðleið fólks um Suðurland og áttu margir leið þar um með verslunarvarning og ýmsar vistir. Þá fóru margir um hann til að sækja sér vinnu við sjósókn á suðurströndinni. Sjá má á troðningunum að þar hefur verið gengið svo öldum skiptir, áður en farartæki komu til sögunnar. Liggur leiðin frá fyrrum ferjustað við Þjórsá alveg niður á Eyrabakka. Má segja að ferskvöru verslun uppsveitarmanna við útlönd hafi farið um Ásaveg þar sem rekstur með fénað í skip á Eyrarbakka fór þar um.
Ef gengið er að norðan kemur vegurinn af Gilvaði á Bitrulæk, liggur norðan við býlið Hnaus og Hótel 360, þaðan að Skotmannshól, vestur yfir Skagás og Orrustudal, norðan við bæ í Önundarholti, framhjá Súluholtsmúla og síðan niður í Gaulverjabæjarhrepp. Þar fer hann framhjá Seljatungu og Gegnishólum, niður á Hólavöll, sem var löggiltur áningarstaður ferðamanna.
Ásavegurinn er kjörin og falleg gönguleið fyrir þá sem eru vel útbúnir. Moldin getur þó blotnað upp í rigningartíð. Vegfarendum er bent á að leiðin liggur um vatnsverndarsvæði og því bannað að fleygja rusli og öðrum úrgangi.
Merkt gönguleið er á milli Orrustudals og Hnauss (um 6 km ganga). Orrustudalur og Skotmannshóll er sögusvið Flóamannasögu. Í Orrustudal voru háðar tvær miklar orrustur eftir landnám. Féll m.a. Hásteinn Atlason í hinni fyrri, en Önundur bíldur í þeirri síðari. Á Skotmannshóli stóð Þormóður Þjóstarsson er hann skaut hinu fræga bogskoti sem skar úr um lögmæti vígs Arnars í Vælugerði.
Á þessari leið er hæsti punktur Flóahrepps en þar má sjá stórfenglegt útsýni í allar áttir. (sjá mynd)