Akrakirkja er í Borgarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Hún var byggð árið 1900. Kirkja hefur að Ökrum allt frá kristnitöku en fyrstu heimildir eru frá því um 1200. Katólskar kirkjur voru helgaðar Maríu guðsmóður og prestur sat þar fram undir siðaskipti. Akrar tilheyrðu Hítarnesþingum, sem voru lögð niður 1880 og sóknin lögð til Staðarhrauns og síðan til Borgar 1950. Tveim árum síðar aftur til Staðarhrauns og að nýju til Borgar 1970.
Hjörseyjarkirkja var lögð niður árið 1896 og sóknirnar sameinaðar. Eignir hennar voru færðar til Akrakirkju. Eigendur kirkjunnar afhentu söfnuðinum kirkjuna sama ár til eignar og umsjár. Árið 1899 var kirkjan endurbyggð og stækkuð. Á árunum 1986-87 voru gerðar miklar endurbætur á kirkjunni. Hún er timburkirkja, klædd bárujárni og grunnurinn er hlaðinn. Veggir kirkjunnar að innan eru skreyttir með marmaramálningu og hvelfingin yfir kór er blámáluð.
Akrar eru á sjávarbakkanum inni af Akranesi. Samkvæmt Egilssögu átti Skalla-Grímur Kveldúlfsson þar bú og sáðlönd (minjar um fornt akurgerði?). Hvalseyjar eru fyrir landi Akraóss, skammt norðar.