Skálinn í Hvanngili
Hvanngil er rótgróið skálasvæði á Rangárvallaafrétti þar sem fjallmenn hafa gist um áratugi. Skálasvæðið er kennt við gil sem liggur upp af svæðinu inn í Hvanngilsbotn og er markað að austanverðu af Hvanngilshnausum en að vestanverðu af Ófæru og Ófæruhöfða. Þar má finna gamalt ból sem er hlaðið og þar héldu fjallmenn til áður í eftirleitum. Nýjasti skálinn í Hvanngili er frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og hann tekur 60 manns. Gamli skálinn sem í er einnig hesthús tekur 20 manns á dýnum og er það hús byggt árið 1964 og þóttu mikil þægindi í þá daga. Þá má finna tóftir af enn eldra sæluhúsi sem þó var helst nýtt þegar veður voru slæm, en annars gist í tjaldi. Þá er á svæðinu einnig tjaldstæði, salerni og sturtur.
Frá Hvanngili er hægt að ganga stuttar leiðir á Hvanngilskrók og Hvanngilshnausa, en einnig er fallegt að ganga inn Hvanngilið. Frá Hvanngili liggja svo lengri gönguleiðir inn Mælifellssand í Strút, framhjá Slyaöldu á Mælifellssandi þar sem fjórir Skaftfellingar urðu úti árið 1868 eða þá í gegnum Kaldaklof og þaðan fyrir Gimbragil, Hrútagil og yfir Strútsöldur í Strútskofa, niður Emstrur á Laugaveginum niður í Þórsmörk, niður Rangárvallaafrétt niður á Krók og Hungurfit og eins er hægt að ganga Laugaveginn áfram upp í Hrafntinnusker og þaðan yfir í Landmannalaugar.
GPS hnit: 64°50.026 19°12.507.