Fálkahúsið
Fálkahúsið, Hafnarstræti 1-3. Í aldaraðir urðu Íslendingar að veiða fálka og senda þá til Danakonunga, notuðu þá til gjafa, því þeir þóttu beztu veiðifálkar heims. Fálkahúsið á Bessastöðum var flutt til Reykjavíkur 1763. Því var komið fyrir á malarkambinum, þar sem Hafnarstræti er núna. Búfé, sem var notað til að fóðra fálkana var geymt í Geldinganesi. Eftir 1800 hætti eftirspurnin. Húsið var selt og var nýtt til verzlunar. N.C. Havsteen, kaupmaður, lét rífa það og reisa nýtt aðeins norðar árið 1868. Brydesverzlun eignaðist húsið á níunda áratugi 19. aldar og þá fékk það á sig núverandi mynd. Margar verzlanir hafa starfað í Fálkahúsinu síðan.