Sænautavatn er með stærri vötnum á Jökuldalsheiði og er gott veiðivatn. Flatarmál þess er 2,3 km², dýpt 23 m og það er í 525 m hæð yfir sjó. Vatnið liggur frá norðri til suðurs og bærinn Rangalón, sem fór í eyði 1924 er við norðurenda þess.
Bærinn Sænautasel, sem fór í eyði 1943, er við suðurenda vatnsins. Hann hefur verið endurbyggður sem safn. Frárennsli þess er Lónskvísl, sem fellur til Hofsár í Vopnafirði. Hringvegurinn nr. 1 lá við norðurenda þess og vel er akfært suður fyrir það. Allvænn fiskur er í vatninu, 2-7 punda bleikja, sem þykir sérlega bragðgóð. Netaveiði hefur ekki verið stunduð í vatninu um árabil.
Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Haldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. Hann gekk þangað úr byggð.
Veiðikortið:
Veiði er heimil allan sólarhringinn. veitt er frá 1. maí til 20. september.
Allt löglegt agn: Fluga, maðkur og spónn.
Veiðivörður / umsjónarmaður á staðnum:
Lilja Óladóttir, Sænautaseli, s: 471-1086 eða 892-8956
Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 580, 74 Km frá Egilsstöðum og 13 Km. frá þjóðvegi eitt.