Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reykholtskirkja

Reykholtskirkjur

Reykholtskirkja er í Reykholtsprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi.

Elzta skinnhandrit, sem til er hérlendis, er máldagi Reykholtskirkju frá síðari hluta 12. aldar. Það er geymt í Þjóðminjasafni. Kirkjur hafa staðið í Reykholti frá upphafi kristni. Breiðabólstaðargoðar byggðu þar kirkjur og fimm þeirra voru prestar þeirra, þar til sóknin var seld Snorra Sturlusyni árið 1206. Katólskar kirkjur Reykholts voru helgaðar Pétri postula, Maríu guðsmóður, heilagri Barböru og Dionísusi biskupi. Gamla kirkjan í Reykholti var reist 1886-1887 úr timbri. Hún á ýmsa góða gripi. Uppbygging nýrrar kirkju með áföstu Snorrasafni og fræðasetri hófst 1988 og lauk með vígslu árið 1996 á degi heilags Ólafs Noregskonungs. Snorrastofa í kjallara og fræðasetur í afhýsi, sem er tengt nýju kirkjunni þjóna áhugaverðum hlutverkum. Fyrirhugað var að rífa gömlu kirkjuna en síðar ákvað Þjóðminjasafnið að taka hana undir sinn verndarvæng.

Kirkjurnar voru í Skálholtsbiskupsdæmi frá 1297 til siðaskipta 1550. Næstu 67 árin áttu tveir lögmenn tilkall til Reykholts og tekna af staðnum. Annar þeirra var Oddur Gottskálksson, sem þýddi Nýja testamentið á íslenzku. Það var gefið út í Hróarskeldu 1540. Eftir 1567 bjó sama fjölskyldan í Reykholti í 185 ár. Nokkrir klerkar þessarar ættar voru meðal mestu lærdóms- og vísindamanna þjóðarinnar. Séra Jón Halldórsson, sem var kenndur við Hítardal, var prestssonur frá Reykholti og faðir Finns Jónssonar biskups, sem samdi Kirkjusögu Íslands (Ecclesiastica Islandiae). Hans sonur var Hannes Finnson, síðasti Skálholtsbiskupinn áður en setur biskupa landsins var flutt til Reykjavíkur. Þessir menn söfnuðu verulegu magni skráa og handrita, sem urðu síðar grundvöllur Þjóðskjalasafnsins. Jón Sigurðsson nýtti sér rannsóknir þeirra til útgáfu Íslenzks fornbréfasafns (Diplomatarium Islandicum) og annarra vísindalegra og pólitískra ritverka. Reykhyltingar voru frumkvöðlar tveggja íslenzkra menningarstofnana, Þjóðskjalasafns og stofnunar Árna Magnússonar.

Þessar klukkur eru meðal elztu minja sóknarinnar. Stærri klukkan er líklega frá 13. öld og í hina er ártalið 1742 greipt ásamt eftirfarandi áletrun:

Klocken lyder
tiden gaar
Gud samle os
i engle kaar

(The bell tolls
time goes
God gather us
among angels)

Samkvæmt upplýsingum á vef Reykholtskirkju.

Kirkja hefur staðið í Reykholti frá því á 11. öld. Áður voru þar torfkirkjur og var sú síðasta byggð árið 1835 á grunni annarrar kirkju frá 1781. Hinar eldri kirkjur munu ávallt hafa staðið í suðurhluta kirkjugarðsins sem nú er en þar hafa fornleifafræðingar samhliða endurgerð timburkirkjunnar árin 2001 til 2006 rannsakað forna kirkjugrunna. Timburkirkjuna sem nú hefur verið gerð upp lét séra Guðmundur Helgason reisa árið 1886. Verkið önnuðust Ingólfur Guðmundsson húsasmiður frá Reykjavík sem fluttist með sóknarprestinum í Reykholt og Árni Þorsteinsson bóndi á Uppsölum í Hálsasveit. Kirkjan ber vissan svip nýklassískra húsa og í formi hennar gætir sterkra áhrifa frá dómkirkju Laurits A. Winstrup í Reykjavík, einkum í hlutföllum hússins og lögun turnsins. Kirkjan var vígð sumarið 1887 og í ársbyrjun 1895 tók söfnuðurinn við umsjón hennar.

Þegar þessi elsta bygging í Reykholti komst í í vörslu Þjóðminjasafnsins hafði henni verið breytt talsvert frá upprunalegri gerð, m.a. klædd bárujárni að utan og hún fengið nýja glugga sem voru mjög frábrugðnir þeim upphaflegu. Þegar viðgerðir hófust haustið 2001 var tekið mið af upprunalegri gerð kirkjunnar. Húsinu var m.a. lyft af grunni og grafið fyrir steinsteyptum undirstöðum en þá kom í ljós forn smiðja undir kirkjugólfinu. Fornleifafræðingar Fornleifaverndar ríkisins rannsökuðu staðinn og fundu þar heillegt eldstæði og óvenjudjúpa steinþró eða nóstokk. Tekin voru kolasýni úr eldstæðinu til aldursgreiningar og voru niðurstöður þær að smiðjan sé frá tímabilinu 1030 til 1260. Ákveðið var að hrófla sem minnst við smiðjunni og má sjá hana undir gólfinu vinstra megin við innganginn.

Frágangi kirkjunnar var að fullu lokið sumarið 2006. Byggingameistari var Stefán Ólafsson bóndi á Litlu-Brekku á Mýrum en Gunnar Bjarnason húsameistari í Reykjavík smíðaði glugga, hurðir og skrautlista. Umsjón og eftirlit var sameiginlega á hendi Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar ríkisins. Gert var við gamla altarið, predikunarstólinn og altaristöfluna sem keypt var frá Danmörku 1901. Hana málaði danski málarinn Anker Lund árið 1901 eftir frægri altaristöflu sem hinn þekkti danski málari Carl Bloch, d. 1890, málaði og setti á sýningu í Charlottenborg árið 1875 Kristur consolator eða Kristur sem huggar. Anker Lund hefur merkt sér myndina í hægra horninu, Copi 1901, Anker Lund en fyrir miðju með smáum stöfum neðst Carl Bloch 1875.

Predikunarstóllinn er jafngamall kirkjunni en hefur verið lagfærður nokkrum sinnum. Hann var í upphafi oðraður, þ.e. málaður í viðarlitum og á spjöldunum voru upphleyptar englamyndir, en síðustu áratugi var hann með máluðu skrauti eftir Grétu Björnsson. Nú hefur stóllinn verið oðraður á ný líkt og gamla altarið og kirkjubekkirnir. Á altarinu er dúkur úr hvítu lérefti með útklipptu mynstri og kappmellu frá miðri síðustu öld. Altarisstjakarnir eru frá 19. öld, þeir eru úr koparblöndu og silfurpletti. Orgelið var keypt til kirkjunnar frá Vesturheimi árið 1901 og hefur nýlega verið gert upp. Á kórveggnum er gömul söngtafla og fylgir henni stokkur með númeraspjöldum. Skírnarfontinn skar út Ríkharður Jónsson myndskeri og Guðmundur Einarsson leirkerasmiður frá Miðdal bjó til skírnarskálina. Gripir þessir voru gefnir kirkjunni árið 1954. Á silfurskildi á fontinum stendur: Skírnarfontur Reykholtskirkju gefinn af Guðrúnu Jónsdóttur Brennistöðum

Kirkjan sem nú er í umsjá Þjóðminjasafnsins er minnisvarði um þá byggingarhætti og handverk sem blómstraði í lok 19. aldar þegar timburhúsaöld hófst á Íslandi.

Sýningarhöfundur er Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur Þjóðminjasafns Íslands.

Fréttatilkynning frá Þjóðminjasafni Íslands.

Myndasafn

Í grennd

Húsafell
Húsafell er vinsæll sumarleyfisstaður meðal Íslendinga. Þar eru fjölmargir sumarbústaðir og hægt er að leigja sér bústað eða tjalda í skóginum. Þarna …
Reykholt í Reykholtsdal
Reykholt í Reykholtsdal er einhver merkasti sögustaður landsins, ekki sízt vegna búsetu Snorra Sturlusonar, sem margir telja merkasta skáld, rithöfund…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )