Myrká er bær og fyrrum prestssetur og kirkjustaður í Hörgárdal. Einhver frægasta draugasaga í íslenzkum þjóðsögum er ættuð þaðan. Hún fjallar um samdrátt milli stúlku og djákna frá Myrká. Sambandið var stutt á veg komið, þegar djákninn drukknaði í Hörgá á leiðinni til stúlkunnar, sem hann hafði boðið til jólagleði á Myrká. Hann lét drukknunina ekki aftra sér frá því að sækja hana og fara með hana heim. Á leiðinni skein í bera hauskúpu djáknans vegna sára, sem ísinn á ánni hafði valdið. Stúlkunnu varð þá ljóst, að hún var að ferðast með framliðnum manni en lét ekki á neinu bera. Þegar heim var komið ætlaði djákninn að draga hana með sér niður í opna gröf en stúlkan náði að hringja klukkunni í sáluhliði kirkjunnar og djákninn steyptist niður í gröf sína.
Kirkja stóð á Myrká fram á 20. öldina en þá var sóknin flutt til Bægisár. Prestur sat á Myrká fram yfir miðja 19. öldina. Kirkjugarðurinn er enn þá notaður og þar er sáluhlið með klukku eins og í sögunni. Séra Páll Jónsson (1812-1889) var meðal presta staðarins. Hann orti m.a. sálmana „Ó Jesú bróðir bezti” og „Sigurhátíð sæl og blíð”.
Mynd: Djákninn frá Myrká