Búrfellsheiði nær yfir stórt svæði í 200-300 m.y.s. sunnan Þistilfjarðar. Nafngjafinn er Búrfell (620m) á heiðinni miðri. Vestan hennar er Laufskálafjallgarður. Þetta heiðarflæmi er eitt hið grózkumesta og fegursta í Norður-Þingeyjarsýslu, mýrlent, þakið vötnum og mólendi á milli. Heiðin er upprekstrarland Öxarfjarðar, Hólsfjalla og Þistilfjarðar.
Gangnamenn frá Hólsfjöllum gista í kofa á eyðibýlinu Hvannstöðum en Öxarfirðingar hjá Búrfelli. Fyrrum voru allmörg býli á heiðinni. Bærinn Foss fór í eyði síðla á 19. öld vegna reimleika.
Lækir frá vötnum á heiðinni mynda Svalbarðsá, sem fellur til sjávar í Þistilfirði.