Unaðsdalskirkja er í Vatnsfjarðarprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi. Unaðsdalur er eyðibýli og kirkjustaður, næstyztur bæja á Snæfjallaströnd.
Fyrrum mun hafa verið bænhús með kirkjugarði í Unaðsdal og kirkjuvegur langur út að Snæfjöllum, yzta bæ á Snæfjallaströnd. Þaðan var kirkjan flutt í Unaðsdal 1867 og sóknin var lögð til Kirkjubólþinga með lögum árið 1880 og þjónað þaðan til 1908. Þá tók Vigurprestur við í 10 ár unz Staðarprestur í Grunnavík bætti öðrum 10 við.
Eftir 1928 hefur Unaðsdalskirkja verið útkirkja frá Vatnsfirði, eins og lögin frá 1907 kváðu á um. Um aldamótin 1900 voru 350 manns skráðir í sókninni en aðeins 150 árið 1907. Kirkjan, sem nú stendur í Unaðsdal, var byggð 1897. Hún er úr timbri með lofti og turni og stendur á sléttri eyri við ósa Dalsár. Fyrri kirkja stóð á gamla bænhússgrunninum í kirkjugarði allmiklu ofar og neðst í túni.
Forn koparhjálmur úr Snæfjallakirkju er meðal góðra gripa og einnig altaristafla eftir Anker Lund (Kristur að lækna Bartimeus blinda) og Guðmundur „bíldur” Pálsson (†1888) skar út stóra krossinn vinstra megin í kórnum. Kirkjan á einnig gamla ljósahjálma og altarisstjaka og tvær stórar klukkur í turni, önnur þeirra frá 1791.