Vatnsfjörður er þekktur úr sögunni vegna landgöngu Hrafna-Flóka, sem gaf landinu nafnið, sem festist við það. Skammt ofan við Brjánslæk er Surtarbrandsgil, friðlýst náttúruvætti. Þar eru steingerðar plöntuleifar frá hlýskeiðum ísaldar. Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson veittu staðnum athygli og lýstu honum um miðbik 18. aldar.
Hellulaug er undir klettum niðri í fjöru neðan eyðibýlisins Hellu, rétt við Flókalund. Hún er grjóthlaðin og steypt, um 4 x 3m og 50-70 sm djúp. Vatnið rennur úr borholu uppi á klettinum á svipuðum stað og gamla Hellulaugin var. Vatnið í lauginni er 38°C og sýrustigið (pH) 9,96. Gestir eru beðnir um að ganga vel um laugina.