Þykkvibær er byggðarkjarni sunnan Safamýrar í Rangárvallasýslu. Hann var umflotinn vatni, þannig að reka varð kýr á sund til að koma þeim í haga. Vaða varð mittisdjúpt vatn til að komast leiðar sinnar og erfitt var um heyskap. Stíflugarður, sem ekið er á, var byggður fyrir Djúpós árið 1930 til að vatnið bryti ekki land. Að því loknu var hægt að fara að rækta tún. Bændur byggja verulegan hluta afkomu sinnar á kartöflurækt.
Fyrstu byggðar í Þykkvabæ er getið árið 1220 og hin elzta er talin vera við Hábæ, sem stendur hæst. Þegar útræði var stundað frá söndunum neðan Þykkvabæjar urðu þar nokkur slys sem víðar á suðurströndinni.
Fyrsti barnaskóli var stofnaður þar 1892, fyrsti skóli til sveita á Suðurlandi.
Flestir, sem eru á leiðinni austur eða vestur um Rangárvalla- og Árnessýslur aka sem leið liggur eftir hringveginum og gleyma, að víða er hægt að bregða sér úrleiðis um byggðirnar sunnan og norðan hans.
Oftast liggur fólki ekki svo lífið á, að það hafi ekki tíma til að kynnast betur því, sem landið hefur að bjóða, þótt það kosti króka. Þar er óhætt að mæla með leiðinni suður að Þykkvabæ og niður í Háfsfjöru, þar sem Vikartindur strandaði.