Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Þiðriksvalladalur

Þiðreksvallarvatn

Þiðriksvalladalur er vel gróinn, fagur og búsældarlegur dalur skammt vestan Hólmavíkur. Þiðreksvallavatn er 1,45 km², dýpst 47 m og í 73 m hæð yfir sjó. Vegna vatnsmiðlunar getur hæðin færst til um 6 m. Við enda vatnsins í dalnum standa eyðibýlin Þiðreksvellir og Vatnshorn. Þverá rennur úr því til Steingrímsfjarðar. Þverárvirkjun er í landi Skeljavíkur. Góður akvegur liggur til vatnsins og að nokkru meðfram því. Í vatninu er bæði bleikja og urriði, mikið magn af fiski. Það er í eigu Hólmavíkurhrepps. Fjöldi stanga er ekki takmarkaður og besta agnið er fluga og spónn. Langt er síðan veitt var í net í vatninu. Sagnir segja frá öfuguggum og vatnaskrímsli í vatninu. Komast má á jeppa fram með öllu vatninu að eyðibýlunum Þiðriksvöllum og Vatnshorni. Í Þiðriksvalladal er friðsælt og fallegt um að litast og frábært berjaland á haustin. Sunnan vatnsins eru klettaleiti, Smiðjuhúsaborgin, Tittlingsborg og Stóraborg. Framan við borgirnar er Hesturinn, sem líkist manni á hestbaki frá bæjarstæðum eyðibýlanna.

Þiðriksvellir. Eyðibýlið Þiðriksvellir er á sléttlendi suðvestan vatnsins. Þjóðsögur segja frá nautamanni Steingríms trölla, sem bjó þar og bærinn er kenndur við, og nautum trölla, sem Nautahjalli ofan bæjar og Nautadalur eru kennd við. Fleiri örnefni eru skýrð í þessum sögum. Hjáleigan Smiðjuhús er nefnd í jarðabókinni 1709. Hún fór líklega í eyði upp úr miðri 18. öld og byggðist aftur á síðari hluta 19. aldar. Þá eru líka tóftir húsa á Grímseyrum við bakka Grímsgils. Virkjun Þverár olli hækkuðu vatnsborði í Þiðriksvallavatni og bærinn fór í eyði. Megnið af túnunum og hluti vegarins að bænum fóru undir vatn.

Vatnshorn.

Eyðibýlið Vatnshorn er í hlíðinni norðvestan vatnsins og stutt var til Þiðriksvalla og bæirnir samtýnis. Þiðriksvallaá rennur á milli bæjanna. Ættarfylgja eða draugur, Pjakkur að nafni, lét allófriðlega á Vatnshorni á 19. öld og birtist skyggnum sem óskyggnum. Nafnið hlaut hann vegna stórs broddstafs, sem hann bar í hendi og pjakkaði með honum eins og hann væri að reyna fyrir sér á ísi. Heyrðu menn pjakkað í ís, sumar eða vetur, merkti það, að einhver, sem Pjakkur fylgdi, væri á næstu grösum. Jarðabókin 1709 segir frá fornu eyðibýli, Skerpingsstöðum, í landi Vatnshorns og tóftir þess sáust þá enn. Ekki er ljóst, hvenær þessi bær fór í eyði en hann stóð líklega við Stekkjargil, þar sem nú heitir Fremristekkur. Vatnshorn var í byggð til 1951 en þar gerðist nánast óbyggilegt eftir að Þverárvirkjun var gangsett skömmu síðar.

 

Myndasafn

Í grennd

Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )