Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað 1. apríl 2012 af öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Náttúrustofu Suðvesturlands og Keili. Þekkingarsetrið er sjálfseignarstofnun rekin af opinberum framlögum ríkis og sveitarfélaga. Þann 21. nóvember 2012 var skrifað undir samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum.
Þekkingarsetur Suðurnesja starfar á þekkingargrunni Fræðaseturs Sandgerðisbæjar, Botndýrastöðvarinnar, Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands. Starfsemin tekur mið af markmiðum, hlutverki og skyldum allra stofnananna.