Svalbarð var stórbýli en er nú kirkjustaður og fyrrum þingstaður Svalbarðshrepps í Þistilfirði. Skammt norðan Svalbarðs fellur Svalbarðsá, góð laxveiðiá, sem kemur úr Djúpárbotnum og hverfur í Þistilfjörð.
Staðurinn komst á kortið, þegar Einar Benediktsson (1864-1940) kom þangað í embættiserindum árið 1893. Hann var aðstoðarmaður föður sins, Benedikts Einarssonar sýslumanns, og átti að rétta í dulsmáli. Stúlkan, sem var grunuð, svipti sig lífi áður en réttarhöld hófust og Einar hvarf heim á leið. Þegar hann kom að Jökulsá á Fjöllum, krafði ferjumaðurinn hann um toll fyrir tvo, hann sjálfan og stúlkuna (Sólveigu), sem fylgdi honum. Þessi atburður hafði mjög djúp áhrif á Einar og margir eru þeirrar skoðunar, að hann hafi aldrei losnað við Sólveigu frá Svalbarði eftir það.
Einar samdi skáldsögu um atburðinn, Gullský. Allar stundir frá þessum atburði hefur verið uppi rykti um, að Sólveig hafi ekki svipt sig lífi, heldur verið myrt. Staðarprestur hafði líklega átt vingott við hana og barnað hana og viljað láta bróður hennar gangast við barninu. Ólíklegt er, að traustum stoðum verði skotið undir þennan orðróm.
Hinn 27. janúar 2010 (kl. 13:30) urðu íbúar Sævarlands varir við unga og smávaxna ísbirnu úti á bjargi. Rannsókn leiddi í ljós, að hún var 4 ára og vel á sig komin. Það gekk á með éljum, svo að dýrið hvarf sjónum manna af og til. Það var talið nauðsynlegt að vinna á dýrinu hið fyrsta og veiðimenn komu fljótt á staðinn. Þeir biðu smátíma eftir leyfi umhverfisráðnuneytisns til að fella birnuna. Leyfið fékkst, en bóndinn, sem skaut birnuna kl. 15;40 hjá eyðibýlinu Óslandi við mynni Sandár, sex km austan Sævarlands, var annar tveggja bænda, sem fengu ekki upplýsingar um ísbjörninn og aðgerðirnar. Hann var að sinna fé sínu með veiðiriffil um öxl, þegar hann sá birnuna, sem ærði féð, og skaut hana umsvifalaust tveimur skotum. Líklegt þótti, að birnan hefði verið í fylgd móður sinnar og því var leitað að fleiri dýrum daginn eftir. Leiddar eru líkur að fjölgun heimsókna ísbjarna vegna röskunar búsetuskilyrða þeirra á norðurslóðum og æ fleiri dýr verði að hafast við á rekís til að finna nægilegt æti. Þegar ísinn bráðnar eiga dýrin ekki annars kost en að reyna að synda til næsta lands. Sundhraði þeirra er áætlaður fimm km/klst.