Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Stórhöfði

Stórhöfði er syðsta byggða ból á Íslandi. Höfðinn er 122 m hár og sæbrattur með miklu sjófuglavarpi. Fyrsti vitinn var byggður þar árið 1906 og sama ættin hefur annazt vörzlu þar frá 1910. Árið 1921 kom veðurathugunarstöð. Mesti vindhraði á landinu mældist þar í febrúar 1991, 119 hnútar, sem samsvara 220 km á klukkustund. Mesta ölduhæð mældist 29 metrar.

Talið er að u.þ.b. 700.000 lundar byggi Stórhöfða. Þeir grafa 1-2 m djúpar holur inn í jarðveginn og verpa aðeins einu eggi. Lundinn er farfugl, sem flýgur héðan í lok ágúst ár hvert, að mestu langt út á haf, en ungfuglinn fer mun lengra og hefur mikið af merktum fuglum fundizt við Nýfundnaland. Lundinn sezt upp í eyjarnar um miðjan Apríl. Lundapysjurnar fljúga á ljósin í bænum í byrjun ágúst og krakkarnir safna þeim í kassa og sleppa þeim daginn eftir út á sjó.

Gæta ber varúðar við skoðun lundabyggða, hvort sem er á Stórhöfða eða annars staðar, og fara aldrei nálægt bjargbrúnum.

Ýmis kennileiti í grennd Stórhöfða eru merkileg, s.s. Brimurð (mikið brim í austan- og suðaustanáttum), Klaufin (bað-og útivistarstaður Eyjamanna á góðviðrisdögum: Costa del Klauf“) og Ræningjatangi (tengdur tyrkjaráninu 1627, þegar sjóræningjar frá Alsír, alls 300 talsins á 3 skipum, lentu þar 16. júlí fremur en að hætta á að verða fyrir skotum úr fallstykkjum á Skansinum við hafnarmynnið. Skansinn var byggður 1586.).

Myndasafn

Í grend

Sögustaðir Suðurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið ...
Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar - perlan í hafinu - eru eyjaklasi suður af landinu. Eyjarnar eru 15 eða 16. Surtsey er syðst en Elliðaey nyrzt. Surtsey varð til ...

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )